16.10.2014 09:47

Landskeppni SFÍ 2014

Keppnin fer fram á Vorboðavelli við Blönduós (1.-2. nóv) og aðalfundurinn verður haldinn á Breiðavaði kl. 20.00 (31.okt). Fyrr um daginn 31. okt verður Mosse (dómari mótsins) með námskeið í dómgæslu. Frétt með ítarlegri upplýsingum væntanleg.

22.09.2014 10:02

Mosse Magnusson dæmir á Landskeppni SFÍ

Samið hefur verið við Mosse Magnusson um að sinna dómgæslu á Landskeppni SFÍ 2014. Mosse er sænskur og hefur 7 sinnum unnið Landskeppnina þar. Fyrir nokkrum árum flutti hann ásamt Lottu konu sinni til Skotlands og þar reka þau sauðfjárbú ásamt því að rækta og temja Border collie smalahunda. Mosse hefur verið í Skoska landsliðinu síðustu 4 ár og í ár var hann í 14 sæti á heimsmeistaramótinu sem var haldið í lok ágúst í Skotlandi. Stefnt er að því að á föstudeginum fyrir keppni verði Mosse með námskeið í dómgæslu.

Eins og áður hefur komið fram er Landskeppnin fyrirhuguð í Skagafirði/Húnavatnssýslum fyrstu helgina í nóvember og aðalfundur félagsins á föstudagskvöldinu fyrir keppnina.

Heimasíða Mosse og Lottu http://mosse.se/

09.09.2014 09:03

Vekjum athygli á áhugaverðu námskeiði hjá LBHÍ

Ég held það sé óhætt að mæla með þessum ágæta manni. Nij Vyas hefur unnið með smalahunda í meira en 20 ár. Hann hefur mikla keppnisreynslu og hefur meðal annars verið í enska landsliðinu. Hann hefur einnig mikla reynslu af því að halda námskeið og gaf út bókina "Sheepdog training and trials" árið 2010. Nij hefur viðamikla þekkingu á almennri hundaþjálfun og rekur hundaskólann "Bertie Dogs" á Suður Englandi. Sjá nánar á heimasíðu Vyas http://www.sheepdog-training.co.uk/

18.06.2014 15:05

Landsmót SFÍ 2014

Snati Húnavatnssýslu, Smaladeild Skagafjarðar og Smalahundafélag Hörgársveitar og nágrennis munu hafa samstarf um að halda Landsmót SFI árið 2014. Stefnt er að því að keppnin fari fram fyrstu helgina í nóvember. Keppin verður haldin í Húnavatnssýslum eða Skagafirði. Nákvæm staðsetning verður auglýst síðar.

07.04.2014 13:43

Aðalfundi frestað


Ágæti félagi í Smalahundafélagi Íslands (SFÍ)

Ákveðið hefur verið að fresta aðalfundi félagsins sem var fyrirhugaður 12. apríl næstkomandi (boðaður í síðasta fréttabréfi) og halda hann samhliða næstu Landskeppni SFÍ.

Er þetta gert til þess að freista þess að fá betri mætingu á aðalfundinn og gefa deildum félagsins rýmri tíma til að kynna sér og fjalla um mögulega aðild SFÍ að International Sheep Dog Society.

Deildirnar eru um leið hvattar til að funda um aðildarumsóknina og skapa umræðuvettvang fyrir sína félagsmenn í þeirra nærumhverfi. Stjórn Smalahundafélags Íslands aflar og veitir fúslega frekari upplýsingar.

Með góðum kveðjum, Jón Geir (jongeirolafsson@gmail.com), Lísa (elisabetg@ru.is) og Sverrir (ytralon@simnet.is)

01.04.2014 15:32

AÐALFUNDUR SFÍ 2014


Aðalfundur félagsins er fyrirhugaður að heimili formanns Ytra-Lóni Langanesi þann 12. apríl næstkomandi kl. 16:00. Við gerum okkur grein fyrir að þetta er langt fyrir suma, en það er sama hvaða staðsetning hefði verið valin, það hefði alltaf verið langt fyrir einhverja. Að Ytra-Lóni geta félagsmenn fengið ódýra gistingu ef þeir þurfa á því að halda.

Ákveðið var að hafa aðalfundinn í fyrra fallinu þetta árið til að taka fyrir aðild SFÍ að ISDS og taka ákvörðun um hvenær næsta landskeppni verður haldin. Landsmótið hefur verið haldið í lok ágúst undanfarin ár, en stjórnin veltir fyrir sér hvort ástæða sé til að fresta keppninni í ár fram yfir göngur og réttir. Erfitt gæti reynst að fá erlendan dómara í lok ágúst þar sem heimsmeistarakeppnin verður haldin í Skotlandi á sama tíma. Auk þess má gera ráð fyrir að rætt verði um upptöku skráningargjalda í ættbókarforrit SNATA fyrir utanfélagsmenn og tekin fyrir önnur venjubundin fundarefni aðalfundar.

Fyrir rúmri viku fór í póst fréttabréf til félagsmanna þar sem félagsmönnum var kynnt hvað það felur í sér fyrir félagið og félagsmenn að gerast aðilar að ISDS. Þeir sem vilja koma hug sínum á framfæri eða vantar frekari upplýsingar geta haft samband við stjórnina. Öll sjónarmið eru vel þegin og verða kynnt á aðalfundi. Við viljum gjarnan að sem flestir félagsmenn komi að þessari ákvörðun, hvort sem menn eru hlynntir eða mótfallnir, og hvetjum því félagsmenn eindregið til að mæta á fundinn.

Félagsmönnum er einnig bent á að tala við deildirnar sínar. Haft hefur verið samband við stjórnir deildanna og þær beðnar um að senda fulltrúa á fund, eða að öðrum kosti senda félaginu álit sitt.

Með góðum kveðjum, stjórn SFI

12.03.2014 15:17

Fésbókarsíða Snæfellsdeildarinnar

Ég vek hér með athygli á Fésbókarsíðu Smalahundafélags Snæfells og Hnappadalssýslu. Síðan er opin öllum áhugamönnum um BC smalahunda og er vettvangur líflegra og uppbyggilegra samskipta. Frábært framtak hjá Snæfellsdeildinni sem við hin njótum góðs af. Félagsmenn hvattir til skoða þetta.

Hér er slóðin: https://www.facebook.com/groups/142332905926307/ 

 

 

15.02.2014 23:10

Fundargerð aðalfundar 2013

Kæru félagar og annað áhugafólk:

Fundargerð síðasta aðalfundar er nú aðgengileg á heimasíðunni undir Fundargerðir.  Vinsamlegast látið mig vita í síma 860 7566 ef fram koma spurningar eða athugasemdir.

Bestu kveðjur,

Jón Axel

26.11.2013 17:01

Smalahundamót Austurlandsdeildar SFÍ

Deildarmót Austurlandsdeildar SFÍ var haldið á Ytra-Lóni á Langanesi laugardaginn 23. nóvember síðastliðinn. Sverrir Möller bar hitann og þungann af mótinu og rétt að nota tækifærið til að þakka honum fyrir ósérhlífnina. Það er að ýmsu að huga þegar svona mót er haldið og ekkert sjálfgefið að menn bjóðist til að taka það að sér. Dómari var Lárus H. Sigurðsson frá Gilsá. Við hjá Austurlandsdeildinni kunnum honum og öðrum sem lögðu hönd á plóginn kærar þakkir fyrir sín störf.

Það var ægifagurt á Langanesinu þennan daginn. Atlandshafið ólgaði í brautarjaðrinum og hvíslaði einhverju að keppendum á meðan fjöllin mændu á úr bláum fjarska.  Það má segja að mótið hafi endurspeglað vel þær krefjandi aðstæður sem íslenskir smalahundar þurfa gjarnan að glíma við. Hiti var rétt undir frostmarki , bálkvasst og mikil vindkæling. Brautin bauð upp á ýmsar áskoranir svo sem frosnar tjarnir, hálkubletti og rofabörð sem gátu hæglega verið þrándur í götu ef hundar og smali gættu ekki vel að sér. Hundarnir sýndu og sönnuðu að þarna voru á ferð alvöru smalahundar sem láta engan bilbug á sér finna við krefjandi aðstæður. Kindurnar voru léttar og skemmtilegar og  að sama skapi fljótar að refsa keppendunum ef smalinn gleymdi sér augnablik eða hundurinn bar sig ekki alveg rétt að.


Sjö smalar tóku þátt og 11 hundar. Flestir keppendurnir komu af Norðausturlandi og Austurlandi, en einn keppandi lagði þó í heldur lengra ferðalag en hinir. Agnar Ólafsson mætti frá Höfn með Kát frá Eyralandi og lét varnarðarorð sveitunga sinna um háskalegt ferðalag á hjara veraldar sem vind um eyru þjóta. Við hjá Austurlandsdeildinni fögnuðum að sjálfsögðu þessum góðu gestum. Þess má líka geta að tveir af þátttakendunum, Maríus Snær Halldórsson og Edze Jan de Haan, voru að keppa í fyrsta skipti. Bæði hundar og smalar sýndu góða takta og eru líklegir til alls í framtíðinni.

Keppt var í 3 flokkum að venju og skiptu keppendurnir verðlaununum nokkuð bróðurlega á milli sín. Þegar fáir keppa segir stigaskor ef til vill meira um frammistöðu hundanna heldur en sætið sem þeir lentu í. Eins og kemur fram í úrslitunum hér að neðan skiluðu hundarnir góðum rennslum og voru því vel að verðlaununum komnir. Að keppni lokinni var haldið heim að Ytra-Lóni þar sem vindbarðir en glaðbeittir smalar tóku við verðlaunum. Þar hafði Mirjam galdraði fram dásamlegar veitingar í fundarsalnum Smala sem keppendur og áhorfendur gæddu sér á.


Flokkur unghunda (90 stig mest)

1) Agnar Ólafsson og Kátur frá Eyralandi (70 stig). Aldur hunds: 2,5 ár. M: Lýsa frá Hafnarfirði, F: Mac frá Wales / Eyralandi.

2) Sverrir Möller og Grímur frá Daðastöðum (63 stig) Aldur hunds: 2,5 ár M: Pressa frá Eyralandi, F: Cesar frá Daðastöðum.

3) Maríus Snær Halldórsson og Sara frá Bjarnastöðum (45 stig - féll á tíma). Aldur hunds: 2,5 ár. Míla frá Bjarnastöðum, F: Dan frá Skotlandi / Daðastöðum.


B-flokkur (90 stig mest)

1) Helgi Árnason og Strumpur frá Snartarstöðum (69 stig). Aldur hunds: 3,5 ár. M: Rós frá Daðastöðum, F: Guttir frá Snartarstöðum.

2) Elísabet Gunnarsdóttir og Ýta frá Daðastöðum (64 stig). Aldur hunds: 3,5 ár M: Pressa fra Eyralandi, F: Mac frá Wales / Eyralandi. 

3) Edze Jan de Haan og Gláma frá Sauðanesi (? stig - Féll á tíma). Aldur hunds: 3,5 ár. M: Snotra frá Grundarfirði, F: Patti frá Daðastöðum.


A-flokkur (100 stig mest)

1) Þorvarður Ingimarsson og Mac frá Wales / Eyrarlandi (85 stig). Aldur hunds: 11 ár. M: Peg, F: Storm.

2) Elísabet Gunnarsdóttir og Skotta frá Daðastöðum (85 stig). Aldur hunds: 7 ár. M: Píla frá Garði, F: Prins frá Daðastöðum.

3) Elísabet Gunnarsdóttir og Panda frá Daðastöðum (83 stig). Aldur hunds: 5 ár. M: Skotta frá Daðastöðum, F: Dan frá Skotlandi / Daðastöðum.

4) Þorvarður Ingimarsson og Lýsa frá Hafnarfirði (68 stig). Aldur hunds: 9 ár. M: Týra frá Kaðalsstöðum, F: Tígull frá Eyrarlandi.

5) Þorvarður Ingimarsson og Eyra frá Eyrarlandi (67 stig). Aldur hunds: 4 ár. M: Lýsa frá Eyrarlandi, F: Mac frá Wales / Eyrarlandi.

*Ath. aldur hunda er námundarður að heilu eða hálfu ári


MYNDIR frá mótinu er að finna í myndasafni http://smalahundur.123.is/photoalbums/255162/


Fyrir hönd Austurlandsdeildar SFÍ, Elísabet Gunnarsdóttir

25.11.2013 01:57

Norðurlandamót unghunda í Svíþjóð

Kæru félagar og annað áhugafólk um smalahunda.  Eins og sum ykkar vita, ‏‏‏‏þá flutti ég til Kaupmannahafnar um miðjan september til að vinna hjá ráðgjafafyrirtæki.  Á föstudaginn leigði ég mér bíl og ók til Trelleborg í suður Svíþjóð til að fylgjast með norðurlandamóti í flokki unghunda sem haldið var núna um helgina.  Ég tók að mér ritarastörf á mótinu og skráði dóma fyrir 59 af 78 rennslum á mótinu.

Dómari keppninnar er nokkrum okkar ágætlega kunnugur, en hann var James McGee frá Írlandi.  Hann leiðbeindi á námskeiði sem haldið var hjá Gísla í Mýrdal í ágúst 2012 og dæmdi í framhaldi Landskeppnina það ár.  James hefur verið duglegur að halda námskeið, dæma, ‏‏þjálfa, og keppa síðan hann var hjá okkur í fyrra.  Hann er t.d. nýlega kominn úr tveggja vikna ferð til Ástralíu.  Svo er hann byrjaður að keppa með sjö og hálfsmánaðar gömlum syni Beccu, Silver, en James og Becca eru núverandi heimsmeistarar í smalahundakeppni.

Það er gaman að geta sagt frá ‏‏því að James og Silver lentu nýlega í fjórða sæti í unghundakeppni á Írlandi með 90 stig!  Aðspurður taldi James að Silver væri kominn álíka langt og móðir hans var komin þegar hún var rúmlega ársgömul.  Það verður fróðlegt að fylgjast með þeim í framtíðinni.

Fyrir ykkur sem hafið áhuga, ‏‏þá hef ég tekið saman samantekt um keppnina og er hún aðgengileg hér og undir flipanum Greinaskrif um ýmis málefni.

Bestu kveðjur,

Jón Axel

21.11.2013 21:24

Breytt tímasetning

Byrjum kl 12 reikna ekki með að dómari verði kominn fyrr

21.11.2013 20:31

Fjárhundakeppni

Jæja nú stittist í keppnina. þegar eru 12 hundar skráðir þannig að þetta verður að öllum líkindum skemmtilegt og spennandi.Veðurspáin lofar góðu .Við reiknum með að byrja helst ekki seinna en 11 til að lenda ekki í myrkri þó aldrei fyrr en dómarinn mætir.Ágætt að taka með sér nesti og sleppa hádegishléi en það verður boðið upp á kaffi við verðlaunaafhendinguna.

18.11.2013 15:22

Ótitlað

Austurlandsdeild Smalahundafélags Íslands auglýsir:

Smalahundakeppni verður haldin á Ytra-Lóni Langanesi 23. nóvember.

Keppni hefst KL ? (fer eftir fjölda, nánar auglýst síðar) og keppt verður í þremur flokkum

Unghundum, B-flokki og A-flokki.

Flokkur unghunda er ætlaður hundum yngri en 3 ára.
B-flokkur er ætlaður keppendum með enga eða mjög litla keppnisreynslu.
A-flokkur er opin flokkur og ætlaður þeim sem hafa tekið þátt í fjárhundakeppnikeppni áður.

Keppnin er öllum opin og viljum við í Austurlandsdeildinni hvetja alla til þess að mæta og eiga glaðan dag á Langanesi. Þetta er í annað sinn sem haldin er keppni á Ytra-Lóni.

Hægt er að fá gistingu á Ytra Lóni.
Skráning hjá Sverri í síma 848 3010. Helst fyrir föstudag 22. nóvember.

26.08.2013 19:53

Landskeppni SFÍ 2013 - Úrslit og myndir


Jæja, þá er búið að taka saman upplýsingar og nokkrar myndir vegna landskeppninnar sem var haldin um helgina og koma þeim fyrir undir Úrslit í ýmsum keppnum.  Vinsamlegast látið mig vita sem fyrst í síma 860 7566 eða á atlanwave(hjá)yahoo.com ef fram koma spurningar eða athugasemdir.

Bestu kveðjur og takk fyrir góða keppni,

Jón Axel

04.08.2013 20:13

Landskeppni 2013

 

Landskeppni smalahundafélags Íslands verður haldin að Fjalli á Skeiðum helgina 24 - 25 ágúst.

Keppt verður í eftirtöldum greinum:

  • v A flokki, opinn flokkur og fyrir þá hunda sem hafa fengið 50 stig eða meira í B flokki.
  • v B flokkur,  fyrir hunda sem ekki hafa náð 50 stigum.
  • v Unghundaflokkur, fyrir hunda yngri en 3 ára.

Dómarar verða Kristján Ingi Jónsson, Daðastöðum og Eggert Kjartansson, Hofsstöðum.

Keppnin hefst á unghundum laugardaginn kl. 10:00. Skráningar fara fram hjá Aðalsteini í síma: 868 6576 fyrir miðvikudaginn 21. Ágúst.

Mótsgestum er bent á:

  • v  Tjaldsvæðið í Brautarholti, s: 486 5518
  • v  Gistingu á Hestakránni Húsatóftum, s: 895 0066 og 486 5616

Hádegismatur verður í boði fyrir þá sem vilja og sameiginlegur kvöldverður á laugardagskvöldið.

 

Aðalfundur 2013

Aðalfundur smalahundafélags Íslands verður haldin á Hestakránni Húsatóftum föstudagskvöldið 23.ágúst kl. 21:00

Flettingar í dag: 365
Gestir í dag: 30
Flettingar í gær: 227
Gestir í gær: 31
Samtals flettingar: 304026
Samtals gestir: 42675
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 08:19:23