SMALAHUNDAFÉLAG ÍSLANDS

Um félagið

 

Þann 15. desember 1992 stofnuðu nokkrir áhugamenn um smalahunda með sér Smalahundafélag Íslands (SFÍ) að fyrirmynd ISDS í Bretlandi. Félagið vildi stuðla að skráningu og ræktun fjárhunda og standa fyrir sýningum og keppnum. Fyrstu stjórn félagsins skipuðu Gunnar Einarsson frá Daðastöðum, frumkvöðull og driffjöður félagsins um árabil, Lísbeth Sæmundsson frá Holtsmúla og Björn Ólafsson frá Kópavogi. Það var þeirra álit og reynsla að Border Collie hundar hentuðu best við þær aðstæður sem við búum við hér á Íslandi.

Tilgangur félagsins er að stuðla að skráningu og ræktun smalahunda, beita sér fyrir sýningum, keppnum og efla samstöðu meðal ræktenda og eigenda. Árið 1993 hóf félagið samstarf við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og Gunnar Einarsson leiðbeindi þar á námskeiðum í mörg ár. Félagið stóð fyrir sinni fyrstu keppni í október árið 1994 að Hesti í Borgarfirði og síðan þá hefur félagið staðið fyrir árlegri Landskeppni smalahunda. Fjárhundakeppnir hvetja menn til að temja hundana sína, koma saman og sýna færni þeirra við fé sem og að örva menn til dáða.

Þegar þetta er ritað eru 232 félagar skráðir hjá félaginu og hafa verið stofnaðar sjö landshlutadeildir innan félagsins. Virkustu deildirnar skiptast á að halda árlegar landskeppnir SFÍ.

Félagið rekur umfangsmikinn gagnagrunn í samstarfi við Bændasamtök Íslands sem heldur utan um skráningar smalahunda frá upphafi. Hundarnir sem þar eru skráðir eru Border Collie hundar sem geta flestir rakið ættir sínar til hunda með ISDS skráningu tugi ára aftur í tímann. Félagar í Smalahundafélaginu hafa aðgang að grunninum. Þar koma meðal annars fram upplýsingar um ættir hunds, afkvæmi og árangur í keppnum. Í kerfinu getur eigandi tíkar skráð got undan henni að því gefnu að eigandi ræktunarhundsins samþykki skráninguna. Þar geta eigendur hunda einnig skráð eigendaskipti. Slóðin er:  snati.bondi.is.

Heimasíða félagins er ekki síst staður til að halda utan um ýmsan fróðleik um félagið og einnig fyrir helstu fréttir og tilkynningar sem snúa að félaginu. Öllum félagsmönnum er heimilt að setja fréttir á síðuna og geta fengið lykilorð hjá formanni. Smalahundafélagið er einnig með facebook síðu þar sem félagar geta átt gagnvirk samskipti.

Sambærileg félög SFÍ eru til um allan heim, þar sem fyrst og fremst er lögð áhersla á að rækta áfram einstaka eiginleika Border Collie tegundarinnar óháð útliti. Smalahundafélag Íslands er aðildarfélag að ISDS (International Sheep Dog Society) sem þýðir að félagið starfar í samræmi við meginreglur og markmið ISDS. ISDS var stofnað 1906 og hefur haldið utan um ræktun Border Collie tegundarinnar frá upphafi. Aðildarmeðlimir hafa rétt til að skrá hunda hjá ISDS að undangengnum vinnuprófum. 

Starfsemi Smalahundafélags Íslands hefur alla tíð verið unnin í sjálfboðavinnu af félagsmönnum sem af hugsjón og óeigingirni hafa ljáð félaginu krafta sína með það að markmiði að á Íslandi séu ræktaðir og þjálfaðir ekki síðri Border Collie vinnuhundar en annars staðar í heiminum.

Smalahundafélag Íslands er opið öllum sem hafa áhuga. Hægt er að hafa samband við formann til að skrá sig í félagið. Einnig er hægt að skrá sig í gegnum SNATA.

Upphaflega sett inn þann 8.11.2014 af Lísu. Uppfært 2.9.2015.

Flettingar í dag: 161
Gestir í dag: 30
Flettingar í gær: 86
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 46189
Samtals gestir: 4392
Tölur uppfærðar: 2.12.2022 20:03:14

Smalahundafélag Íslands

Farsími:

8686576 Aðalsteinn Aðalsteinsson formaður

Heimilisfang:

Lögheimili formanns hverju sinni

Um:

Stjórn skipa: Aðalsteinn Aðalsteinsson, Tíbrá Halldórsdóttir og Jens Þór Sigurðarson.

Kennitala:

560207-0930

Bankanúmer:

192-05-60031

Tenglar