Færslur: 2011 Desember

09.12.2011 18:13

Dæmi hver fyrir sig

Guðmundur S. Brynjólfsson skrifar:
Það fylgja því alltaf ónot þegar maður les um eða verður vitni að því að hundur leggist á fé. Og þótt að það sé kannski frekar á tilfinningalegum nótum sagt þá er það yfirleitt óhugnanlegra þegar rakkinn kemst í lambfé. Þá verður ungviðið frekar fyrir barðinu á hundinum en fullorðna féð sleppur.

Sumir hundar hafa þann sið - ef hægt er að tala um að hundar hafi sið - að tæta fé. Þeir fara þá með gelti og hlaupum um safnið og urra og glefsa en bíta kannski ekki og ef þeir þá bíta þá er það tilviljanakennt og nánast hending ein sem ræður hvort kindinni blæðir eða ekki. Slíkir hundar eru til óþurftar og ættu ekki að fá að þrífast en því miður eru þeim á stundum gefin grið en sjaldnast tekst að temja þá til betri umgengni við fénaðinn. Þó eru þess dæmi.

Dýrbíturinn verður ekki taminn, hann er vargur og lætur aldrei af vana sínum að fara í fé og bíta eða hvekkja með öðrum hætti. Dýrbíturinn er hættulegur enda er það regla að þegar upp um kemst þá er sá lúmski skratti sleginn af. Lesið hef ég vandaðar skýrslur frá búnaðarfélögum sem segja frá því að sumir hundar sýni strax sem hvolpar að hverju stefni og er þá undantekningarlaust mælt með því að gripið sé inn í og skepnunni lógað. En það er því miður of oft látið undir höfuð leggjast. Þekkt er að hvolpar setji sig í stellingar dýrbítsins strax nokkurra vikna og ættu menn þá þegar að vera á varðbergi. Þeir bíta sjaldnast svo ungir en eðlið leynir sér ekki. Þessir illskeyttu snatar skjóta upp herðakambinum og sýna tennurnar, urra og kasta sér að fénu - gera í raun allt nema bíta. Þetta þykir hláleg sjón en er mikilvæg viðvörun og hana ætti að taka alvarlega. Of oft er talað um þessa hegðun þessara smáhvutta sem broslega tilburði en það eru þeir að sönnu ekki.

Sjaldgæfust er sú tegund dýrbíta sem velur sér bara gemlinga að leggjast á. En hún er þekkt. Og man ég glöggt eftir vitnisburði bónda úr Biskupstungum sem talaði um þessa hegðun hunds sem ónáttúru. Ekki er vitað hvað veldur þessari sérvisku - ef hægt er að tala um sérvisku í hundi - sem þannig hagar sér en engu að síður er þetta sorgleg staðreynd. Það er hörmung að sjá veturgamalt fé illa leikið eftir óðan hund; sjá þar kannski á eftir vel ættaðri kind og vita að hún verður aldrei til brúks - ef hún þá lifir.

Hvað er til ráða? Einhverjir hafa talað um fræðslu en það er erfitt að kenna fleiri hundum en bara þeim gömlu að sitja, fyrir nú utan það að hundar eru daprir á bókina. Helst hefur mér skilist af ráðunautum að besta ráðið sé að skilja hundkvikindi þessi strax sem hvolpa - leyfa þeim ekki vera saman og stöðva strax alla tilburði í þeim til að hópa sig en það er oftar en ekki í hópum sem þetta náttúruleysi byrjar. Einn og einn skrattakollur þjálfar þetta þó upp með sér - ef hægt er að taka svo til orða að hundur þjálfi sig - og er þá ekkert til ráða annað en að aflífa dýrið. Einn og einn bóndi sem ég hef rætt við hefur nefnt að gelding gæti dugað á svona hund en því trúi ég illa og engar rannsóknir hef ég lesið sem benda til þess að það að leggjast bítandi á fé tengist náttúru hundsins.

Því er ekki annað en biðja bændur að vera á varðbergi; gljáfægður hundsfeldur og góð bygging og hlaupageta segja ekki nema hálfa söguna; glansandi skrokkur og vinalegt augnaráð geta blekkt. Bítandi hundur er gangandi tímasprengja - ef hægt er að kalla hund tímasprengju?

Svari nú hver fyrir sig.

08.12.2011 08:45

Ný smalahundadeild

Ég renndi í Hörgárdalinn föstudaginn 2 desember og sat stofnfund nýrrar smalahundadeildar.

Fékk hún nafnið Smalahundafélag Hörgársveitar og nágrennis.

Alls eru stofnfélagar 14 en aðeins sex af þeim sátu fundinn , var ég var við mikinn áhuga hjá þeim og víst að þeir verða góður biti í okkar flóru.

Stofnfundurinn var haldin í leikhúsinu á Möðruvöllum fræbæru gömlu húsi með góðum anda.

Stjórn félagsins skipast svo Aðalsteinn H. Hreinsson Auðnum 1 Formaður, Ásta J Aðalsteinsdóttir Myrkárbakka gjaldkeri og Davíð Jónsson Kjarna ritari.

Ég bið þá alla velkomna í hópinn og vænti góðs samstarfs í framtíðinni með þeim.



























     Frá stofnfundi.

























       Stjórn Smalahundafélag Hörgársveitar og nágrennis.



02.12.2011 13:03

Umræður um námskeiðahald




Sæl veri þið

Vona að ég sendi þetta á rétta aðila, þ.e. stjórn Smalahundafélags Íslands - eins og fram kemur á heimasíðu félagsins.

Ég hef aðeins rætt það við Reyni og Sverri, fyrir all nokkru, hvort við getum mótað með okkur samstarf um námskeiðahald til einhverns tíma. Það er jú æskilegt fyrir hundaeigendur að geta séð námskeiðsáætlun til einhverns tíma - segjum 2-4 ár. Það sem þarf að athuga og þið hafið kannski gert að einhverju leiti er m.a. eftirfarandi séð frá minni hlið og reynslu:

·         Finna þarf markvissa leið til að vinna og bæta það námsefni sem er til í samstarfi eða með leyfi viðkomandi höfunda. Byggja á því sem til er og hugsanlega fá fleiri aðila inn til að bæta og þróa það áfram - fá myndir, teikningar eða annað. Í þetta væri hugsanlega hægt að sækja um styrki. Mjög sterkt er að fleiri en einn aðili standi að slíkri umsókn. Hugsanlega í tengslum við það safna upptökum sem geta nýst sem ítarefni.

·         Skipta landinu upp, finna góða kennslustaði og reynda kennara á hverju svæði fyrir sig . Staðirnir skipta máli hvað varðar góða aðstöðu til verklegrar kennslu, bóklegrar og gagnvart veitingaþjónustu. Ferðakostnaður er orðinn gífurlegur og því æskilegt að fá góða kennara sem búa nær svæðunum - þó af og til geti verið æskilegt að breyta til. Hugsanlega einhver munur á milli aðila hvað varðar grunn - og framhaldsnámskeið. Þannig væri æskilegt að félagið fengi til liðs við sig kennara sem væru tilbúnir að bóka sig svolítið fram í tímann.

·         Setja upp tímaplan til 2-4 ára þar sem tilgreind eru væntanleg námskeið í hverjum fjórðungi/landssvæði. Þannig að fólk geti gert ráðstafanir í tíma og gengið að námskeiðum nokkuð vísum - en auðvitað með fyrirvara alltaf um þátttöku. Hér erum við að tala um fjárhundanámskeið sem og hugsanlega önnur stök námskeið eða hugsanlega ráðstefnu/málþing um ýmsa þætti er varðar hundahald, þjálfun og kynbætur. - jafnvel mætti hugsa sér að fá að erlenda fræðimenn á þessu sviði - myndi þá falla inn í hugsanlega styrkumsókn fyrir heildarpakkann.

·         Öll námskeið væru kynnt sameiginlega af Endurmenntun LbhÍ og Smalahundafélagi Íslands sem samstarfsverkefni - kæmi fram í kynningum, á námsefni og á skjölum. Báðir aðilar myndu nota sínar leiðir til markaðssetningar og kynningar á námskeiðunum.

·         Hugsanlega er eitthvað fleira sem vert er að spá í og huga að en er ekki nefnt hér.

Mér þætti afar vænt um að fá að heyra viðbrögð frá ykkur í stjórninni við þessum punktum og hvort ykkur þykir þetta spennandi eða hvort þið hafið engann áhuga á samstarfi í þessum dúr.

Kveðja og góða helgi!

o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o

Ásdís Helga Bjarnadóttir

Verkefnisstjóri hjá Endurmenntun LbhÍ / Projectmanager of Continuing Education

Landbúnaðarháskóli Íslands / Agricultural University of Iceland

tel: 433 5000 - e-mail: asdish@lbhi.is  

www.lbhi.is/namskeid

www.facebook.com/namskeid

Sæl Ásdís

Þau viðbrögð er ég hef fengið frá þeim er telja sig færa leiðbeinundur hafa ollið mér miklum vonbrigðum.

Það speglast kanski af því að smalahundafélagið er félagsskapur áhugafólks og allflestir meðlimir starfandi bændur eða þeim tengdir.Skipulagning langt fram í tíman er kannski óþægileg fyrir marga.

Allnokkur umræða fór um þetta á síðasta aðalfundi okkar í ágúst og kom ég inn á það að menn eru að halda víða námskeið eða leiðbeina án þess að formaður félagsins hafi hugmynd,sem er slæmt því margar fyrirspurnir koma til mín auk lbhi veit ég.

Það væri frábært ef hægt væri að halda því frábæra starfi áfram sem Gunnar á Daðastöðum var frumkvöðull aðí samstarf i við bændaskólann.Ég lýsi hér með eftir að menn skoði þetta betur og mun birta þetta á heimasíðunnu okkar í von um umræður um málið.

Minni svo á þau góðu orð sem Þorvarður okkar á Eyrarlandi hefur oft uppi " þegar menn eru í félagi verða menn að skoða hvað þeir geta gert fyrir félagið en ekki hvað félagið getur gert fyrir þá"

Fyrir félagið er til mikils að vinna að geta starfað náið með lbhí.

Bestu kveðjur með von um viðbrögð . 
Sverrir Möller

  • 1
Flettingar í dag: 137
Gestir í dag: 49
Flettingar í gær: 106
Gestir í gær: 33
Samtals flettingar: 171810
Samtals gestir: 26767
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 19:50:53