13.11.2015 14:24

Mót á Eyrarlandi

Fjárhundakeppni verður haldin á Eyrarlandi í Fljótsdal laugardaginn 21. nóvember. Keppt verður í hefðbundnum flokkum. Tímasetning auglýst síðar. Skráningar í síma 862 1835, Þorvarður.

11.11.2015 17:54

SFÍ aðildarfélag að ISDS - Vinnupróf Húsatóftum

Nú um helgina fóru fram vinnupróf International Sheep Dog Society (ISDS) að Húsatóftum á Skeiðum þar sem félagsmenn Smalahundafélags Íslands (SFÍ) komu saman með hunda sína til þess að fá þá viðurkennda og skráða í ættbók ISDS. ISDS eru alþjóðleg samtök sem eiga sér yfir 100 ára sögu og hafa haldið utan um ræktun Border Collie fjárhunda frá upphafi. Það má segja að vinnuprófin hafi verið lokahnykkurinn í aðildarumsókn SFÍ að samtökunum og markar þessi viðburður raunverulegt upphaf okkar að félagasamtökunum. Fyrir hönd ISDS mætti Jim Easton, stjórnarformaður til landsins og með honum í för var Judith Sheen framkvæmdastjóri, einnig mætti Susanne Moelgaard Kaarsholm dýralæknir frá Danmörku til þess að augnskoða alla þá hunda sem komu í vinnuprófið.  

Jim Easton sá um að dæma hundana í vinnuprófinu ásamt fulltrúum sem SFÍ tilnefndi honum til aðstoðar, þá Þorvarð Ingimarsson og Sverri Möller. Vinnuprófið byggðist upp á því að sjá hundana í almennri vinnu við tuttugu kinda hóp án þess að gerð væri krafa um að þeir hefðu hlotið fullkomna tamningu. Þannig var hundurinn dæmdur frekar en eigandinn! Aðeins hundar sem sýndu ótvíræð einkenni Border Collie við vinnu gátu staðist prófið. Alls voru dæmdir 22 hundar frá 14 eigendum sem allir stóðust prófið og munu því allir fá ISDS skráningu. Þarna var komið saman úrval stofnsins í landinu, bæði gamlar og nýrri blóðlínur. Það er óhætt að segja að þetta séu ræktunarhundar framtíðarinnar og sumir þeirra hafa að sjálfsögðu sannað sig sem slíkir nú þegar.

Eftir vinnuprófið og þegar allir hundar höfðu verið augnskoðaðir fór fram stutt kynning í Hestakránni að Húsatóftum á starfsemi ISDS, þar sem Judith Sheen framkvæmdastjóri fór yfir sögu og hlutverk félagsins og rakti hvernig stjórnskipulag þess er byggt upp. Einnig kynnti hún fyrir fundargestum hvernig skráningar á gotum ganga fyrir sig og hvatti fólk til þess að hafa samband við skrifstofuna ef einhverjar spruningar vakna. Félagsmenn munu bæði geta skráð got með að hafa beint samband við skrifstofuna í Bretlandi eða fyrir milligöngu SFÍ. Eftirfarandi er veffang félagsins; www.isds.org.uk

Eftir kynningu Judith tók Jim Easton stjórnarformaður til máls og það er óhætt að segja að sú ræða hafi vakið ánægju viðstaddra. Þar lýsti hann því yfir að úttektin hefði verið sú besta sem hann hefði verið viðstaddur hjá nokkru landi við inngöngu í ISDS og væri þó búinn að vera við margar þeirra. Þar átti hann bæði við gæði hundanna og hversu góð tök fólk hefði á þeim. Hann var greinilega snortinn yfir því hversu góðan grunn við eigum í okkar Border Collie stofni og hversju öflugir (e. strong) hundarnir væri. Af því tilefni minntist hann þeirra tíma í Bretlandi þegar meira var til af öflugum vinnuhundum heldur en nú er. Hann sagði frá því hvernig eftirspurn eftir þægilegum (e. soft) hundum hefði haft áhrif á rækunina í Bretlandi og taldi að menn hafi gengið alltof langt í því að rækta slíka hunda. Hann hvatti okkur eindregið til þess að halda í þessar gömlu línur af öflugum og ákveðnum hundum sem hér eru og rökstuddi það meðal annars með því hversu lítið væri til af slíkum hundum í dag. Einnig sagði hanni: "Þú ræktar ekki harðan hund undan tveimur þægilegum, en þú færð nóg af þægilegum undan hörðum hundum." Þá hvatti hann okkur til að senda fulltrúa á Evrópumót fjárhunda (Continental Sheepdog Championship) í ágúst næstkomandi, á Íslandi væru bæði hundar og smalar sem ættu fullt erindi þangað. Easton rakti einnig sögu og tilurð ISDS og hvernig ræktun fjárhunda þróaðist úr tegundum nokkurra hunda með mismunandi eiginleika í eina tegund sem sameinaði þessa eiginleika og þannig varð til þessi fjárhundategund, Border Collie, sem er í dag þekkt um allan heim fyrir gæði og hæfileika.

Það er einstaklega ánægjulegt að fá svona góða umsögn frá manni eins og Jim Easton sem hefur lifað ævi sem er samofin sögu ISDS. Ræktun Smalahundafélags Íslands byggir enn að stórum hluta á þeim grunni sem Gunnar Einarsson lagði með fyrstu hundunum sem hann flutti inn og því ekki úr vegi að nýta tækifærið og þakka honum fyrir ómetanlegt framlag til fjárhundaræktunarinnar á Íslandi sem og öðrum sem hafa lagt metnað sinn í að flytja inn og rækta góða hunda. Án þeirra værum við ekki þar sem við erum í dag.
Einnig vil ég þakka Elísabetu Gunnarsdóttur fyrir að eiga frumkvæði að þessu verkefni og fylgja því í höfn og að lokum vil ég þakka Aðalsteini Aðalsteinssyni og fjölskyldu á Húsatóftum fyrir aðstoðina og frábæra aðstöðu fyrir bæði vinnuprófin sjálf og þáttakendur.

Það er von mín að aðild okkar að ISDS gagnist okkur í framtíðinni og að félagsmenn nýti sér þá möguleika sem í henni felast. Ég tek að sjálfsögðu undir með Jim Easton og hvet til þess að við varðveitum það sem við höfum, á þann hátt gætum við skapað okkur sérstöðu og ekki ólíklegt að hingað yrði leitað frá öðrum löndum eftir ræktunarhundum framtíðarinnar.

26.10.2015 00:41

Smá viðbót við vinnupróf ISDS/SFI

Framhald frá síðustu frétt...

Það skal tekið fram að allir félagar SFÍ eru velkomnir ef þeir hafa áhuga á að koma og sjá hvernig vinnuprófin ganga fyrir sig. Einnig eru allir félagsmenn velkomnir á ISDS kynninguna sem verður fljótlega eftir að prófunum lýkur. Áætlað er að prófunum ljúki á milli fjögur og fimm.

Stefnt er að sameiginlegum kvöldverði í lok dags og eru félagsmenn beðnir um að láta Elínu (s.868 3006) vita hvort þeir ætla að mæta í hann í síðasta lagi þann 5. nóv sem er fimmtudagur.

Það styttist óðum í prófin og þeir félagar sem ætla að mæta með hunda í vinnuprófin eru beðnir um að fylgjast vel með pósthólfinu sínu fram að prófum.

Með kveðju frá stjórn SFÍ


03.10.2015 09:00

Vinnupróf ISDS og augnpróf SFI

Vinnupróf ISDS (International Sheedog Society) verða haldin að Húsatóftum laugardaginn þann 7. nóvember 2015. Við gerum ráð fyrir að byrja kl. 9.00. Vinnuprófin eru aðeins fyrir þá félaga SFÍ sem hafa kosið að gerast aðildarfélagar að ISDS. Hundurinn þarf að sýna hæfni í að fara úthlaup fyrir hóp af kindum, setja þær af stað, koma með þær til smalans og reka frá smalanum. Tilgangur prófsins er að meta tegundareinkenni hundsins og hæfni hans í að sinna venjulegri fjárhundavinnu (normal farm work), en ekki að mæla færni hundaþjálfarans. Hvert próf tekur 15-20 mínútur. Einungis hundar sem sýna ótvíræð einkenni Border Collie í vinnu eiga möguleika á því að fá skráningu hjá ISDS. Prófin kosta 250 GBP, eða um 50 þús kr. Greiða þarf fyrir prófið óháð því hvort hundurinn stendst það eða ekki.

Prófdómari fyrir hönd ISDS er sitjandi formaður ISDS James W Easton. Hann mun að eigin sögn reyna að aðstoða og hughreysta menn, en ekki valda þeim stressi eða áhyggjum. Dómari fyrir hönd SFI verður Þorvarður Ingimarsson formaður SFÍ.

Samhliða vinnuprófunum verða haldin augnpróf SFÍ. Það kemur augnlæknir frá Danmörku til að skoða hundanna og athuga hvort þeir þjáist af ýmsum aughrörnunarsjúkdómum sem saman ganga undir nafninu PRA (Rrogressive Retinal Atrophy). Víða er gerð krafa um að hundar sem á að rækta undan fari í augnskoðun til að koma í veg fyrir að þessir sjúkdómar séu ræktaðir áfram.  Prófin eru opin öllum félagsmönnum, kosta 15 þús kr og eru félagsmenn hvattir til að nýta sér þetta.

Að vinnuprófum og augprófum loknum verður Judith Sheen framkvæmdastjóri ISDS með kynningu á ISDS. Allir félagar SFÍ eru hjartanlega velkomnir. Félagsmenn geta síðan gert sér glaðan dag á Hestakránni um kvöldið.

Þeir sem hafa áhuga á að fá að æfa sig fyrir prófið í vikunni fyrir prófin er bent á að hafa samband við Aðalstein Aðalsteinsson s. 868 6576.

Þeir sem vilja ættu að geta bókað gistingu á Hestakránni. Vinsamlegast hafið samband við Elínu í s. 868 3006.

Hvað þarf að taka með í vinnuprófið?

  1. Hund og smala :)

  2. Staðfestingu frá dýralækni þar sem fram kemur að hann hafi tekið blóð úr hundinum sem um  ræðir og sent á Optigen til að prufa fyrir augnsjúkdómnum CEA. Mikilvægt að örmerki hunds komi fram.

  3. Niðurstöðu prófsins - má líka senda með e-pósti á elisabetg@ru.is

  4. Litmynd af hundunum sem ISDS tekur til vörslu. Útprentaða. (Helst 2 - eina af hvorri hlið).

  5. Pening til að borga fyrir prófin. Má líka leggja inn á reikning SFÍ, en þá þarf það að gerast fyrirfram (sjá bankauppl. hér til hægri).

Stjórn SFÍ sér um að prenta út ættbækur, fylla út formlegar umsóknir og koma með í vinnuprófin. Enn eiga einhverjir eftir að láta vita hvaða hund þeir ætla með - endilega drífa í því!

Að lokum:
Gert er ráð fyrir að þeir hundar sem mæta í vinnuprófið séu búnir að fara í og fá niðurstöðu úr blóðprufu til að skera úr um augnsjúkdóminn CEA (Collie Eya Anomaly).  Ef einhver er með hund sem gengur vel með og langar að fara með hann í prófið, en hefur láðst að fara tímalega í blóðprufu, er viðkomandi beðinn um að hafa samband við Lísu (s. 863 1679) Mjög líklega hægt að leysa það. Einnig ef einhver félagi SFÍ er ekki nú þegar aðildarmeðlimur að ISDS, en langar að gerast það er hann beðinn um að hafa samband við Lísu.

30.09.2015 15:40

Hundaþjálfun - meiri eftirspurn en framboð?


Undirrituð hefur orðið vör við nokkra eftirspurn eftir að koma hundum í þjálfun. Sumir hafa kvartað yfir því að það sé ekki nóg framboð af þjálfurum og erfitt að koma hundum að. Eftir að hafa rætt þetta í stjórn hefur okkur dottið í hug að safna saman og lista upp hér á síðunni þá sem hafa áhuga á að taka að sér hunda. Þeir sem eru að leita sér að þjálfara geta þá skoðað listann og vonandi fundið einhvern sem hefur pláss fyrir hundinn. Okkur þætti vænt um að þeir sem eru að taka að sér hunda eða geta hugsað sér að taka hunda skrái sig hér að neðan, eða sendi póst á elisabetg@ru.is.

Með kveðju 

20.09.2015 14:52

Aðalfundur 2015

Fundargerð aðalfundar SFÍ 2015 er komin á netið. Sjá "Fundargerðir" hér til hægri.

07.09.2015 22:32

Landsmót SFÍ 2015

Landsmót Smalahundafélags Íslands var haldið í Einholti á Mýrum síðustu helgina í ágúst. Austurlandsdeildin sá um mótið að þessu sinni en hitann og þungann af mótinu bar Agnar Ólafsson frá Tjörn og hans nánustu. Þar var ekki í kot vísað. Brautin var góð, afgirt en rúmgóð og gott að sjá á brautarenda. Að auki var hún fallega innrömmuð með Vatnajökul í baksýn. Það eru örugglega ekki margar keppnisbrautir sem hafa stærsta jökul Evrópu í göngufæri.

Mynd af verðlaunahöfum í A-flokki. Vantar að vísu aðalmennina - hundana :) Myndina tók Jón Geir Ólafsson. Feiri myndir í boði Jóns Geirs: http://smalahundur.123.is/photoalbums/274526/

Til þáttöku voru skráðir 17 hundar. Þar af 8 í A flokk, 3 í B flokk og 6 í unghundflokk. Allir hundar fengu tvö rennsli og keppt var að 100 stigum hvorn dag.

Unghundar -  úrslit.

1. Frigg frá Kýrholti F. Karven Taff M. Loppa frá Dýrfinnustöðum.
Stig 73 + 67 = 140. Smali Aðalsteinn Aðalsteinson.

2. Skutla frá Skálholti F. Karven Taff M. Týra frá Innri Múla.
Stig 60 + 47 = 107. Smali Marzibil Erlendsdóttir.

3. Doppa frá Húsatóftum. F Brúsi frá Brautartungu M.Kría frá Daðast.
Stig 74 + 30 = 104 Smali Aðalsteinn Aðalsteinsson.

B flokkur - Úrslit

1. Kátur frá Eyrarlandi F. Mac Eyrarlandi. M. Lýsa frá Hafnarfirði
stig 77 + 74 =151 Smali Agnar Ólafsson.

2.Astra Polar Eyvindarmúla innfl. ISDS 00316260
stig 63 +33 = 96 Smali Kristinn Hákonarson.

3. Gutti frá Hafnarfirði F. Karven Taff M. Ólína frá Hafnarfirði
stig 39 - hætti keppni. Smali Sverrir Möller.

A fl. Opinn flokkur - Úrslit.

1. Kría frá Daðastöðum F.Dan frá Skotlandi. M. Soffía frá Daðastöðum
stig.72 +85 =157 smali Aðalsteinn Aðalsteinsson.

2 Korka frá Miðhrauni. F.Tinni frá Staðarhúsum M. Táta frá Brautartungu
stig 75 +61 = 136. smali Svanur Guðmundsson.

3. Smali frá Miðhrauni F. Tinni. M Táta
stig 70 + 63. Smali Svanur Guðmundsson.


Til hamingju smalar og hundar. Endilega látið vita ef hér er  e-ð sem þarf að leiðrétta.

14.07.2015 15:08

Landsmót 2015

Landskeppni SFÍ 2015

Landskeppni Smalahundafélags Íslands 2015 er í umsjá Austurlandsdeildar SFÍ  og verður, eins og áður hefur komið fram, haldin í Einholti á Mýrum í Austur- Skaftafellssýslu helgina 29. til 30. ágúst. Einholt er um 30 km vestan við Höfn í Hornafirði.

Keppt verður í eftirtöldum greinum:

  • A flokki, opinn flokkur

  • B flokki,  fyrir hunda sem hafa náð 3ja ára aldri en ekki náð 50 stigum á Landskeppni

  • Unghundaflokki, fyrir hunda yngri en 3 ára

Einungis er hægt að skrá sama hundinn í einn flokk.

Dómari verður Ross Gamesy frá Wales.

Keppnin hefst á keppni unghunda á laugardaginn kl. 10:00. Skráningar fara fram hjá Agnari Ólafssyni í s. 845 8199 eða Þorvarði í s. 862 1835, fyrir fimmtudaginn 27. ágúst til að komast í mótsskrá.

Á laugardagskvöldið verður sameiginlegur kvöldverður í Félagsheimilinu Holti.

Hægt verður að tjalda við Félagsheimilið sem er um 5 km frá mótsstað. Einnig er tjalsdsvæði  í Haukadal (10 km).  Fjöldi annarra gistimöguleika er á svæðinu.

Set þetta hér ef það gæti mögulega gagnast einhverjum - síður þar sem hægt er að skoða gistingu:
http://accommodation.is/gisting-a-islandi-kort/
http://www.sveit.is/kort-gisting-um-allt-land
http://www.hostel.is/
Síðan kemur hellingur upp ef maður skráir "gisti* 781" eða "gisti* 780" inni á ja.is

 

Aðalfundur 2015

Aðalfundur Smalahundafélags Íslands verður haldinn í Félagsheimilinu Holti föstudagskvöldið 28. ágúst kl. 20:00.

11.06.2015 09:48

Verðskrá fyrir utanfélagsmenn v. Snata

Á síðasta aðalfundi var ákveðið að SFÍ skuli innheimta gjald af utanfélagsmönnum sem vilja láta gera breytingar á skráningu eða fá nýskráningu í Snata. Stjórn var falið að ákveða gjaldið og hefur hún komið sér saman um eftirfarandi:

Eigendaskipti eða aðrar smálegar breytingar á hundi sem þegar er skráður - 1500 kr.

Skráning á stökum óskráðum hundi - 3000 kr. (sem að uppfyllir öll skilyrði um að fá skráningu)

Heil got - 1500 kr. á hvolp fyrir skráningu og að auki - 500 kr. eigendaskipti (ef gert samhliða)


Með kveðju frá stjórn SFÍ

11.06.2015 08:51

Landsmót SFÍ 2015 og ISDS vinnueðlispróf

Ágætu félagar

Stefnt er að landsmóti í Einholt á Mýrum í Austur-Skaftafellssýslu (rétt hjá Tjörn þar sem Agnar Ólafsson býr) síðustu helgina í ágúst. Dómari verður Ross Gamesy. Nánar um þetta síðar.

Gert er ráð fyrir að vinnueðlisprófin fyrir ISDS skráninguna verði í byrjun nóvember. Formaður stjórnar ISDS hefur ákveðið að koma sjálfur og taka út hundana og framkvæmdasýra ISDS verður með honum í för. Ekki amalegt tvíeyki það. Nánar um þetta þegar nær dregur.

Með kveðju frá stjórn SFÍ

08.03.2015 21:31

Fyrstu landsmótin - úrslit og myndir

Hér er ég búin að taka saman úrslit landsmóta á tímabilinu 1994-2002, eða frá upphafi og fram til 2002. Upplýsingarnar eru fengnar úr úr gömlum fréttabréfum frá árunum 1999, 2000, 2001 og 2003 sem SFÍ hefur áskotnast. Takk Dagbjartur! Þarna má sjá kunnugleg andlit sem hafa sama sem ekkert breyst á síðustu 20 árum :).

Sjá hér: http://smalahundur.123.is/photoalbums/270393/

Ef einhver lumar á upplýsingum úr keppnum 2003-2007 má viðkomandi gjarnan hafa samband við Lísu s. 863 1679, eða elisabetg@ru.is.


04.03.2015 23:27

ISDS og facebook

 

Það er gaman að segja frá því að við fengum staðfestingu á því í dag að Smalahundafélag Íslands hefur verið samþykkt sem aðildarfélag að ISDS. Við stjórnin munum á næstu dögum setja okkur í samband við formenn deildanna og ákveða næstu skref í samráði við tengiliðinn okkar úti. Meira um það fljótlega.

Smalahundafélag Íslands hefur stofnað lokaðan hóp á facebook fyrir félagsmenn til að miðla upplýsingum og ræða málefni félagsins. Félagar eru hvattir til að skrá sig í hópinn sem heitir einfaldlega "Smalahundafélag Íslands". Við höfum dregið lappirnar að opna svona síðu því við vildum ekki dreifa umferð smalahundaunnenda á of marga staði, en eftir nokkra umhugsun er þetta niðurstaðan. Við viljum endilega að sem flestir skrái sig þannig hópurinn endurspegli samfélagið okkar hjá SFÍ sem best.

10.02.2015 19:58

Bók um fjárhundatamningar

Árið 2012 setti Ásdís Helga Bjarnadóttir, þá starfsmaður Landbúnaðarháskóla Íslands, sig í samband við Smalahundafélag Íslands til að kanna áhuga á því að hefja samstarf um að útbúa íslenskt námsefni um þjálfun og uppeldi BC fjárhunda. Þessari hugmynd var að sjálfsögðu vel tekið og úr varð að Elísabet Gunnarsdóttir var fengin til að vinna verkið. Bókin hefur nú komið út í útgáfu Landbúnaðarháskólans, með stuðningi Smalahundafélags Íslands og Bændasamtaka Íslands. Að auki þessara aðila hafa fjölmargir lagt verkefninu lið með einum eða öðrum hætti.

Bókin er til sölu hjá Þorvarði Ingimarssyni, varsi@emax.is og kostar 3500.

14.01.2015 17:18

Hverjir eru með

Sæl öll.

Nú væri gott að vita hvort einhverjir eru með til Skotlands. 
Endilega látið mig vita í síðasta lagi á sunnudags kvöldið 18 janúar. Sendið mail á netfangið jongeirolafsson@gmail.com eða hringið s:8655427.

kv Jón Geiremoticon

10.01.2015 19:59

Ótitlað

Heil og sæl kæru félagar.

Ég vil óska ykkur gleðilegs árs með þökk fyrir það liðna.

Þeirri hugmynd skaut niður í kollin á mér að þörf væri á að fara á fjárhundakeppni til Skotlands og ákvað ég að bera þessa hugmynd undir meðstjórnendur mína og varð niðurstaðan sú að kanna hér hvort ekki væri áhugi á að fara hópferð í nafni smalahundafélagsins.

Keppnin sem um ræðir verður helgina 23 til 25 júli í Conon Bridge, Dingwall, Ross-Shir og er undan keppni fyrir heimsmeistarakeppni. Þarna eru um 150 keppendur og komast 15 áfram sem mynda landslið Skota.

Ekkert hefur verið ákveðið eða skipulagt um ferðina ennþá,(kannski bara best að hafa það svoleiðis) en flogið yrði út þann 21 júl. 22 þá væri hægt að skoða sig um og fá að skoða að hjá einhverjum góðum hundaþjálfurum og sjá hvernig þeir að bera sig að við iðju sína.23-25 er svo keppnin og 26 til að komast heim. En þetta er nú bara beinagrind og endilega skjótið á mig hugmyndum.

Verð get ég ekki sagt um að neinni nákvæmni núna enda bara verið að athuga hvort einhver áhugi sé fyrir svona ferðarlagi.

Þeir sem áhuga hafa á að vera með sendið mér póst á netfangið jongeirolafsson@gmail.com , eða hringið s:8655427 og svo er líka hægt að hafa samband við mig á facebook.


Bestu kveðjur 
Jón Geir Ólafsson Gröf    
Flettingar í dag: 42
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 237
Gestir í gær: 37
Samtals flettingar: 173973
Samtals gestir: 27060
Tölur uppfærðar: 5.5.2024 10:00:58