22.02.2010 22:11

Smalanámskeið Háholti

Sæl öllsömul. Ég var rétt í þessu að setja inn myndir af námskeiðinu. Vildi skrifa við myndirnar en er ekki nógu mikið tæknitröll til að finna út úr því. Allavega var þetta skemmtilegt námskeið og vil ég þakka öllum þeim sem að námskeiðinu komu fyrir frábæra helgi.
Kv. Raggi. 

15.02.2010 01:18

Smalahundanámskeið

Ágætu félagar

Smalahundadeild Árnessýslu stendur fyrir námskeiði fyrir félagsmenn helgina 20-21 febrúar n.k
kennari er Þorvarður Ingimarsson Eyrarlandi. Námskeiðið verður haldið að Háholti og er þáttökugjaldið
krónur 15.000 á mann.
Ef félagsmenn ná ekki að fylla á námskeiðið verður opið fyrir þáttöku annarra.
Skráningar þurfa að berast í síðasta lagi miðvikudagskvöld 17 febrúar til Reynis Jónssonar Hurðarbaki
í síma 8980929.

Kveðja stjórn Smalahundardeildar Árnessýslu

04.02.2010 22:02

Aðalfundur Smalahundadeildar Árnessýslu




Aðalfundur Smalahundadeildar Árnessýslu haldinn á Hestakránni Húsatóftum 28. Janúar 2010.

Á fundinn mættu 18. Manns.

  1. Formaður félagsins Bjarni Másson setti fundinn. Stakk upp á Ingvari Hjálmarssyni fundarstjóra og Þuríði Einarsdóttir fundarritara og var það samþykkt.

  2. Drífa Gestsdóttir hundaþjálfari kynnti starf sitt, námskeið og kennsluaðferðir og svaraði spurningum.

  3. Kaffihlé.

  4. Þuríður las fundargerð Stofnfundar og var hún samþykkt.

  5. Bjarni las skýrslu formanns og var hún samþykkt.

  6. Reynir las upp og útskýrði reikninga félagsins og voru þeir samþ.samhljóða.

  7. Inntaka nýrra félaga.

Í félagið gengu fjórir menn:

Þorgeir Pálsson

Guðjón B. Þórisson

Þorsteinn Logi Einarsson

Hallgrímur Birkisson

  1. Kosningar.

Þuríður Einarsdóttir ritari og Hilmar Sturluson varamaður í stjórn gáfu kost á sér áfram og voru endurkjörin með lófaklappi.

  1. Önnur mál.

Borin fram tillaga frá stjórn:

Við í stjórn Smalahundadeildar ætlum að bera upp þá tillögu að félagsgjaldið fyrir árið 2010 verði 4.000. kr.

2.000. kr. af því fara í Smalahundafélag Íslands.

Samþ. Samhljóða.

Reynir kynnti fyrir fundarmönnum möguleika á því að fá Þorvarð á Eyrarlandi til að halda námskeið f/ fjárhunda í febrúar. Var ákveðið að hann vinni áfram að því.


Guðrún á Bjarnastöðum lýsti ánægju sinni með samæfingarnar sem haldnar voru síðastliðið sumar. Voru fundarmenn sammála um að nauðsynlegt er að halda þeim áfram næsta sumar.


Bjarni sagði frá því að síðastliðið haust tók hópur manna að sér að smala Skógræktina í Þjórsárdal. Hann kastaði fram þeirri hugmynd að þetta gæti orðið fjáröflun fyrir félagið.

Fleira ekki gert og fundi slitið


Þuríður Einarsdóttir



04.02.2010 20:24

Hvolpahittingur í máli og myndum.

Það mættu 10 tilvonandi smaladýr í höllina, á aldrinum tæplega 4 mán til 1 1/2 árs.

 Byrjað var á að kanna hversu vel hafði verið staðið að uppeldinu á þessum væntanlegu smalamaskínum, hvort þeir teymdust vel, gengju við hæl, leggðust , biðu samkv. skipun og.sv.frv.

 Þetta leit bara vel út og greinilega liðin tíð að menn láti hvolpana ala sig upp sjálfa þar til kemur að fyrstu smalamennskunni.

 Þegar hvolpar á þessum aldri mæta á svona samkomu skiptast þeir gjarnan í 3 flokka eftir að rolluprufunni lýkur.

 Einhverjir eru ekki komnir með neinn áhuga á kindum enn, sem á oftast eftir að breytast þó alltaf finnist dæmi um ágætlega ættaða hvolpa sem fá aldrei rétta vinnuáhugann.

 Sumir eru síðan orðnir býsna borubrattir en þeir eru ekki í vinnuhugleiðingum, heldur að leika sér að verkefninu og þurfa gjarnan að bíða eitthvað eftir að borgi sig að setja þá í kindavinnunámið.

 Þriðji hópurinn er síðan orðinn klár í námið, kominn með rétta vinnuáhugann sem á þó stundum eftir aukast áður en lýkur.



 Þessi litla tík sem var yngst í hópnum, ekki orðin 4 mán, kom skemmtilega á óvart.
Aldrei séð kindur áður en snögg að átta sig á að þessi fyrirbrigði væri rétt að stoppa af.



 Fallegur sveigur fram fyrir þær og svo var stoppað. Þetta endurtók hún, svo ekki fór á milli mála að það leynast einhver nothæf gen í henni. Kannski vegna þess að hún á langömmu í Dalsmynni sem heitir Skessa.



 Terrý frá Hrossholti kom vestan úr Reykhólasveit í djammið á Nesinu. Hún lenti í miklum ævintýrum fyrr um daginn en slapp ekki við reiðhallartímann að þeim loknum. Hún er árinu eldri en frænka hennar hér fyrir ofan og lumar vonandi á nokkrum ömmugenum.



 Hér gera Hraunholtabóndinn og Moli frá Tálknafirði leikhlé og ræða stöðuna.


 Katla og Elísa koma sér í mjúkinn hjá Alexander með því að hæla hvolpinum hans  á hvert reipi.

 Já það er alltaf jafnskemmtilegt að spá og spekúlera í fjárhundsefnunum. 

 Tillögunni sem stungið var að mér um daginn, um að boðið verði uppá námskeið 1 sinni til 2 í mán. sem síðan myndi  ljúka með hundakeppni í fyllingu tímans,  er hér með komið áfram til stjórnar smalahundadeildar Snæfellinga.

 Þar er full af eldklárum náungum sem gætu skipst á um að leiða hóp í gegnum svona ferli.

Það vantar allstaðar góða smalahunda í dag.emoticon

29.01.2010 10:27

Ótitlað

 

Hvolpahittingur í Hestamiðstöðinni.


 
 Það er stefnt að hvolpahittingi í Hestamiðstöðinni laugardaginn 30 jan.

Þetta er ekki alvörunámskeið heldur á að reyna að ná saman B C hvolpum, ótömdum eða lítið tömdum 6 mán. eða eldri.
 Ekki verður um mikla kindavinnu að ræða en hvolparnir fá þó aðeins að sýna taktana ef áhuginn er kominn.



 Þarna verða vonandi einhverjir sérfræðingar á svæðinu og munu þeir ekki, ef að líkum lætur, liggja á skoðunum sínum um stöðu hvolpanna í námsferlinu og hvernig standa skuli að framhaldinu við tamninguna.



 Húsnæðiskostnaði verður skipt niður á gesti og gangandi og þeir sem luma á köku í búrinu eða í kistunni eru sérstaklega velkomnir, grípi þeir hana með.


Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.emoticon

Skyldumæting hjá félögum í Smalahundadeild Snæfellinga með eða án hvolps..emoticon

 Skráning í síma 6948020 eða dalsmynn@ismennt.is

27.01.2010 21:47

Aðalfundur Smalahundadeildar Árnessýslu


    Aðalfundur Smalahundadeildar Árnessýslu verður haldinn á Hestakránni Skeiðum fimmtudagskvöldið 28 jan kl:20:30.
Drífa Gestsdóttir kynnir hundaþjálfun.
Venjuleg aðalfundarstörf.
Nýir félagar velkomnir.

Vonumst til að sjá sem flesta.
Stjórnin.

15.01.2010 22:17

Með góðum kv frá Eyrarlandi


sæll Hilmar, þú vildir fá mynd af húsinu.
En heil og sæl öll.
Ég hef ekkert gert í hundum síðasta árið, fyrst fór tíminn í að liggja í rúminu og þegar því lauk tók sauðburður við og því næst húsbygging.  En við rifum gamla hlutann af íbúðarhúsinu sl. vor og byggðum annað lítið eitt stærra í staðinn.  Við erum svo að segja búin með neðri hæðina og getum því farið að halda hundapartý á ný.  Enn betri verða partýin þegar efri hæðin klárast, því þar verður koníaksstofan.  En stefnan er tekin á hundakeppni í vetur, einhver timan á útmánuðum.
Þá gerum við okkur glaðan dag og að sjálfsögðu verða allir velkomnir og nóg er plássið.
Ég er búinn að setja út fjóra smáskussa sem eru í ullinni og ætla mér að temja ungu tíkurnar eitthvað, þær Flugu og Vöku.  
Lýsa á von á sér um miðjan feb. undan Mac.
Tígull karlinn er nú genginn á vit feðra sinna og á vonandi náðuga daga þar.  Hann var búinn að skila góðu dagsverki.
Fleira er nú ekki að frétta hjá mér í bili.
kv Varsi  

01.01.2010 01:56

Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir gamla árið

Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir gamla árið.
Hvernig væri nú að vera svolðið duglegri að virkja þassa heimasíðu okkar og setja inn nokkrar línur.
Með von um gott smalahundaár.
kv
Hilmar Móskógum.

20.12.2009 21:48

Tamning fjárhunda

Mig langar að láta vita af því að kennslumyndband sem Gunnar á Daðastöðum gerði á árinu 1990 er komið á heimasíðuna þeirra. Mjög áhugavert fyrir þá sem hafa áhuga á að temja hundana sína.
Héðan er allt gott að frétta. Kindur komnar inn, sæðingar búnar og tilhleypingar c.a. hálfnaðar og því engin not fyrir hundana, sem kemur sér vel því Dot átti sex hvolpa 17 des og eru þeir undan Hrók hans Gumma.

Jólakveðja frá Móskógum

03.11.2009 21:12

Snæfellsneskeppnin 2009

Úrslit keppninnar eru komin í "Úrslit í ýmsum keppnum" sem er til vinstri á skjánum í dálknum "VAFRAÐU UM".
 Ég bað Þóru um að setja svo inn á síðuna eitthvað af myndum frá keppninni, hún var með svo flotta myndavél að ég var ekkert að sína mína myndavél.
kv. Hilmar

28.10.2009 11:38

Snæfellsnes

Árleg smalahundakeppni smalahundadeildar Snæfells- og Hnappadalssýslu verður haldin í Mýrdal sunnudaginn 1. nóvember klukkan 13.00. Keppt verður í unghundaflokki og A- og B-flokkum. Í tilkynningu frá stjórn segir að allir séu velkomnir á sýninguna. 

31.08.2009 18:49

Landskeppni 2009


 Unghundar
1 Gísli Þórðarson Mýrdal og Kata frá Daðastöðum 56 stig
2 Reynir Þór Jónsson Hurðabaki og Tútú frá Daðastöðum 53 stig
3 Marsibil Erlendsdóttir Dalatanga og Svalur frá Dalatanga 35 stig
4 Gunnar Guðmundsson Hafnarfirði og Ólína frá Hafnarfirði 34 stig
5 Svanur Guðmundsson Dalsmynni og Snilld frá Dýrfinnustöðum 27 stig
6 Svanur Guðmundsson Dalsmynni og Dáð frá Móskógum 22 stig
7 Reynir Þór Jónsson Hurðabaki og Colin frá Hafnarfirði 7 stig 
8 Aðalsteinn Aðalsteinsson Selfossi og Rebbi frá Jörva 7 stig

B flokkur
1 Reynir Þór Jónsson Hurðabaki og Tútú frá Daðastöðum 46-39 stig
2 Valgeir Þór Magnússon Grundarfirði og Snót frá Grundaf 46-29 stig
3 Gísli Þórðarson Mýrdal og Kata frá Daðastöðum 42-37 stig
4 Marsibil Erlendsdóttir Dalatangi og Smári frá Dalatanga 24-21 stig

A flokkur
1 Hilmar Sturluson Móskógum og Dot frá Wales 55-88 stig
2 Þorvarður Ingimarsson Eyrarlandi og Mac frá Aeyl a Bryn 86-80 stig
3 Þorvarður Ingimarsson Eyrarlandi og Lýsa frá Hafnarfirði 66-80 stig
4 Sverrir Möller Ytra Lóni og Prins frá Daðastöðum 76-69 stig
5 Marsibil Erlandsdóttir Dalatanga og Spóla frá Daðastöðum 66-39
6 Gísli Þórðarson og Spóla frá Daðastöðum 59-45 stig
7 Valgeir Þór Magnússon Grundarfirði og Skotta frá Fossi 55-0 stig 

 

26.08.2009 13:04

Auglýsingar myndband

Kæru félagar vonandi getið þið sem flest skoðað myndbandið sem ég setti inn hérna þetta var hugsað sem auglýsing fyrir landskeppni og við Reynir Hurðabaki gerðum þetta band með ungum dreng sem heitir Árni Beinteinn og við erum mjög vongóðir um að það verði birt í sjónvarpinu og þá í íþrótta fréttum um kvöldmatar leitið ég fæ líklega að vita hvenar og læt þá vita hér á síðunni og endilega komið með álit á þessu myndbandi, látið vita hvað ykkur finnst.
sjáumst svo sem flest á Landskeppninni

kv.Gunni

24.08.2009 20:46

Nokkur heilræði fyrir byrjendur í fjárhundakeppni.

  Ég er fremur tregur að eðlisfari og það tók mig þó nokkrar fjárhundakeppnir að átta mig á því, að það var kannski ekki allt óþekkum rollum að kenna hvernig gekk.

 Til að stytta byrjendum leiðina datt mér í hug að setja nokkra punkta hér inn ef einhver gæti haft gagn að því.

 
1.Það er mikilvægt að hundurinn hafi góða fjarlægð (vinni ekki of nálægt) og geti unnið rólega að kindunum þegar við á.



2. Komast hjá því ef mögulegt er að missa kindurnar á fulla ferð. (halda hundinum vel frá þeim.)

3. Reyna að sjá út um leið ( helst áður) og féð  ætlar úr braut og bregðast hratt við því . 

4. Leggja mat á féð og hundinn og hvað hann ræður við. Þ.e. hvort hann nái t.d. að rétta kindur af inn í brautina/hliðið eða  gætu tapast fleiri stig við leiðréttingu og einhver vandræði í framhaldi af því, en að fá refsistig t.d.fyrir að missa af hliði.

5. Algengt að menn séu of seinir með skipanir, þegar féð nálgast smalann úr beinu brautinni til að stýra fénu réttu megin og í hæfilegan sveig kringum smalann.

6. Eyða smá tíma í að róa féð og hundinn niður í hringnum, fyrir skiptingu eða innsetningu í rétt.

7. Þegar kemur að því að setja féð í réttina er ágætt að skilja hund og hóp eftir í hringnum og stilla sér upp við opna réttina áður en hundurinn kemur fénu af stað.

 Það er samt persónulega reynslan sem vegur þyngst þannig, að þó hundurinn sé ekki fullkominn borgar sig að hella sér í slaginn og safna í reynslubankann.

 Ég skora svo á félaga mína úr keppnum undanfarinna ára að bæta við þetta punktum fyrir byrjendurnar, nú eða okkur hina.emoticon

19.08.2009 21:19

Landskeppni

Mig langar að minna keppendur að skrá sig tímanlega svo hægt sé að útbúa mótskrá og áætla hversu margar kindur þarf svo eitthvað sé nefnt.
Sú breyting hefur orðið að skráning fer eingöngu fram hjá Reyni í síma 8980929 en símanúmerið hjá Bjarna var ekki rétt ritað í fundarboðinu. Einnig má senda Reyni mail ori@emax.is  
Nú fer óðum að styttast í Landskeppnina og hér hefur frést að menn séu duglegir að æfa út um allt land og jafnvel oft á dag. Er því nokkuð ljóst að framundan er spennandi keppni.
Þeir sem hafa áhuga að drekka annað en vatn með grillmatnum um kvöldið, mega skaffa það sjálf
Með von um að sjá sem flesta (keppendur og áhorfendur) og við munum eiga skemmtilega hundahelgi.
kv. Hilmar

Flettingar í dag: 486
Gestir í dag: 61
Flettingar í gær: 227
Gestir í gær: 31
Samtals flettingar: 304147
Samtals gestir: 42706
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 08:40:34