Færslur: 2022 Júní
14.06.2022 08:26
Minning: Svanur Guðmundsson frá Dalsmynni.
Svanur Heiðar Guðmundsson er látinn 71 árs að aldri eftir nokkurra missera baráttu við krabbamein.
Svanur fæddist í Dalsmynni 29 nóvember 1950 og þar var hans heimili alla tíð síðan. Fyrst starfsmaður á búi foreldra sinna og síðar bóndi sjálfur. Svanur var fyrst og fremst dugnaðarbóndi og jafnframt mikið náttúrubarn. Hafði yndi af hestaferðalögum og haft á orði hvað hann var skemmtilegur ferðafélagi á þeim vettvangi enda maðurinn fjölfróður um flesta hluti og ekki síst skáldskap og vísnagerð og vel liðtækur hagyrðingur. Sinnti refaveiðum töluvert og naut sín ekki síst að eltast við eftirlegukindur á fjöllum „og hafði jafnan sigur“ enda maðurinn kappsfullur og naut aðstoðar afbragðsgóðra hunda sinn. Um árabil áberandi maður í starfssemi Smalahundafélagsins. Formaður Snæfellsnessdeildar um tíma og alltaf tilbúinn að leggja lið í sambandi við námskeiðahald og kennslu og orðin drjúgmörg námskeiðin sem hann kom að með einum eða öðrum hætti fyrir utan fjölmarga hunda sem hann tók heim til sín og kom til nokkurs þroska. Auk þess eru áhrif hans á Border Collie ræktunina innanlands orðin umtalsverð.
Stjórn Smalahundafélags Íslands vottar aðstandendum innilega samúð og þakkar samstarfið.
- 1