Færslur: 2017 Júlí

26.07.2017 10:36

ISDS heimsmeistarmót Border Collie fjárhunda 2017

Smalahundafélag Íslands (SFÍ) varð aðildarfélag að alþjóðlegum samtökum Border Collie fjárhunda (ISDS) árið 2015. Í kjölfarið var Smalahundafélagi Íslands boðið, í fyrsta skipti í sögu félagsins, að senda fulltrúa fyrir Íslands hönd á ISDS heimsmeistaramót Border Collie fjárhunda sem að þessu sinni var haldið í Hollandi 13. til 16. júlí. Er þetta í fyrsta skipti sem keppnin er haldin fyrir utan Bretland. Heimsmeistaramótin eru haldin 3ja hvert ár. Í ár voru 243 hundar skráðir frá 30 löndum. Fulltrúar Íslands voru Aðalsteinn Aðalsteinsson, með tíkina Frigg, og Elísabet Gunnarsdóttur, með tíkina Pöndu.


Yfirstíga þurfti ýmsar hindranir til að þátttaka Íslands gæti orðið að veruleika og einsýnt að þetta yrði bæði dýrt og tímafrekt. Íslensku keppendurnir voru engu að síður ákveðnir í að láta þetta ganga upp og leita lausna og leiða þannig Ísland gæti nýtt þátttökurétt sinn. Reglur um innfluttning hunda til Íslands eru mjög strangar og því var ekki hægt að koma með hundana beint heim aftur að keppni lokinni. Fyrst þurfa þeir að dvelja í mánuð úti eftir keppnina og í kjölfarið, eftir að þeir koma heim,  þurfa hundarnir að fara mánuð í einangrun.  Frigg og Panda eru báðar með afar gott geðlag og virðast ætla að höndla allt þetta umstang vel.

Keppt var á þremur völlum í tvo daga. Þeir 7 (af 40) sem voru með hæst skor eftir hvern dag á hverjum velli komust áfram í undanúrslit á þriðja degi, og þeir 16 sem voru stigahæstir þar komust áfram í úrslit á fjórða degi. Alli keppti á velli 3 fyrsta daginn og Lísa á velli 1 annan daginn. Alli hlaut 118 stig og Lísa 136. Stigin sem íslensku keppendurnir sáu hvað mest eftir töpuðust í úthlaupinu hjá Frigg sem krossaði og síðustu skiptingunni hjá Pöndu sem féll á tíma og varð til þess að lítið eða ekkert fékkst fyrir þessa liði keppninnar. Annað gekk ágætlega vel og með smá meiri heppni hefði  þetta stigaskor verið fljótt að breytast, en það gildir auðvitað um alla hina líka. Amk 158-186 stig þurfti til að komast í undanúrslit,  aðeins breytilegt eftir völlum og dögum. Tveir dómarar dæmdu hverja braut í forkeppninni og meðaltal mótsins í þessum forkeppnum var um 127 stig. Fullt hús stiga var 220 stig (2x110 stig) en hæst voru gefin 202 stig. Dómgæslan var ströng eins og við var að búast og refsað fyrir allt sem var minna en fullkomið. Fimm nýjir dómarar dæmdu síðan í undanúrslitunum og úrslitunum.

Það var mjög lærdómsríkt fyrir íslensku keppendurna bæði að undirbúa sig fyrir og að taka þátt í keppninnni. Þeir koma heim reynslunni ríkari, búnir að fá að prufa að fara braut á stóru alþjóðlegu móti og kynnast þannig umgjörð stórmóta, kindum með skott, dómgæslu á heimsmælikvarða og máta sig við allra bestu smala heims. Þessa reynslu taka þeir með sér heim og geta vonandi miðlað einhverju af henni þar. Þátttakan sannfærir að sama skapi vonandi aðra íslenska smala um að þetta er vel hægt og slegist verði um sæti í liðinu að þremur árum liðnum.

Á mótinu voru margir gríðarlega flinkir smalar og góðir hundar. Kindurnar gátu verið þungar, en ógnuðu hundunum aldrei þannig það var ekki gott að meta hörkuna, en það er engin spurning að hundarnir sem fara í úrslitin verða að vera með gott úthald og gott egó til að ná árangri.  Það er heldur engin spurning að hæfileikar og ástundun skipta máli í þessu sem öðru, þeir sem eru að skila sér í efstu sætin eiga góða hunda,  æfa stíft og keppa í fjölmörgum keppnum oft ár ári. Við á Íslandi eigum góða hunda og góða smala sem við getum verið stolt af og eiga fullt erindi í svona keppnir, en við þurfum að spýta í lófana ef við ætlum að glíma við þessa allra bestu.  Því miður er ekki raunhæft fyrir Íslendinga að sækja keppnir úti reglulega út af einangruninni og kostnaðinum við hana, en við gætum verið duglegri að hafa keppnir hér heima.

Á mótinu ríkti mikil samkennd og samstaða í bland við samkeppnina. Þarna var kominn saman hluti af stóru samfélagi sem tengir Border Collie eigendur um allan heim og Ísland er núna hluti af í gegnum ISDS.  Íslensku nýliðarnir mættu velvild í hvívetna og í huga keppenda yfir vafa hafið að Ísland á að rækta tengslin við þetta alþjóðlega samfélag og nýta sér keppnisrétt sinn á heimsmeistaramótum í framtíðinni. Keppendur og SFÍ vilja koma á framfæri þökkum til þeirra sem styrktu þáttökuna og öllum þeim sem hafa sýnt þessu áhuga og stuðning.


Hér að neðan eru þeir sem komust í úrslit og stigaskor þeirra. Eins og sjá má er höfuðvígið Bretland að skila mörgum í úrslitin, en Norðmenn og Svíar eru líka mjög sterkir. Kanadamenn voru líka með stórt lið og mjög sterkir. Þeir urðu í öðru sæti í liðakeppninni, þó þeir hafi ekki skilað sér í úrslitin. 

1, Jaran Knive, Norway, Gin, Judges points 744, Merit points 77;

2, Kevin Evans, Wales, Ace, 732, 74;

3, Serge van der Zweep, Netherlands, Gary, 730, 74;

4, Anja Holgersson, Sweden, Sod, 672, 62;

5, Karin Mattsson, Norway, Trim, 662, 60.5;

6, Robert Ellis, Wales, Spot, 659, 57;

7, Serge van der Zweep, Netherlands, Jenny, 624, 47.5;

8, Anders Vikstrom, Sweden, Wasp, 622, 45.5;

9, Nigel Watkins, Wales, Jody, 605, 42;

10, David Howells, Wales, Nip, 580, 33.5;

11, Neil Gillon, Scotland, Bhoy, 573, 30;

12, Barbro Klingborg, Sweden, Lillebill, 556, 23.5;

13, Petter Landfald, Norway, Lady, 554, 21.5;

14, Michael Gallagher, Ireland, Val, 533, 16.5;

15, Jo Agnar Hansen, Norway, Tysswg kate, 497, 10;

16, Hendrik Kienker, Germany, Blake, RET, 5.


Hér er hægt að sjá hvernig brautirnar voru upp byggðar og hvernig dæmt var í grófum dráttum: WT2017 Myndir og útskýringar á brautunum.pdf & WT2017 Myndir og útskýringar á brautunum frh.pdf


Fleiri myndir frá mótinu munu birtast hér undir myndaalbúmum innan skamms.



24.07.2017 15:29

Landskeppni BC fjárhunda 2017

Landskeppni BC fjárhunda 2017 verður haldin í Austurhlíð Biskupstungum 21. - 22. október
  • 1
Flettingar í dag: 365
Gestir í dag: 30
Flettingar í gær: 227
Gestir í gær: 31
Samtals flettingar: 304026
Samtals gestir: 42675
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 08:19:23