Færslur: 2015 Nóvember

22.11.2015 15:48

Smalahundakeppni á Eyrarlandi 21. nóv 2015

Úrslit frá keppni á Eyrarlandi haldin af Austurlandsdeild SFÍ

A-flokkur (stig af 100)
1. Panda frá Daðastöðum Elísabet Gunnarsdóttir 81 stig
2. Skotta frá Daðastöðum Elísabet Gunnarsdóttir 81 stig...
3. Mjú frá Ási Agnar Ólafsson 80 stig

4. Kría frá Daðastöðum Aðalsteinn Aðalsteinsson 80 stig
5. Röskva frá Hæl Jón Geir Ólafsson 72 stig
6. Kría frá Eysteinsseyri Þorvarður Ingimarsson 69 stig
7. Gutti frá Hafnarfirði Sverrir Möller 66 stig
8. Frigg frá Kýrholti Aðalsteinn Aðalsteinsson 57 stig
9. Grímur frá Daðastöðum Sverrir Möller 54 stig
10. Sara frá Sigtúni Maríus Halldórsson 22 stig
11. Snúður frá Garðabæ Jón Geir Ólafsson 0 stig

Þegar tveir keppendur fá jafn mörg stig ræður það úrslitum hvor hefur fengið fleiri stig fyrir fyrstu þrjú atriði keppninnar þ.e. úthlaup, að koma kindum af stað og að reka kindur til smalans.

B-flokkur
1. Gláma frá Sauðanesi Edze Jan De Haan

Unghundaflokkur (stig af 90)
1. Doppa frá Húsatóftum Aðalsteinn Aðalsteinsson 66 stig
2. Skutla frá Skálholti Marzibil Erlendsdóttir 58 stig
3. Snati frá Móskógum Sverrir Möller 32 stig

Dómari mótsins var Lárus Sigurðsson
Um sleppingar sáu Hörður Guðmundsson og Jóhann Fr. Þórhallsson

Þorvarður

13.11.2015 15:39

Úrslit landsmóta 2004-2006

Ágætu félagar.

Okkur hafa áskotnast dálitlar upplýsingar um landskeppnir á tímabilinu 2004-2006. Sjá "Úrslit úr ýmsum keppnum" hér til hægri. Aðalsteinn Aðalsteinsson Húsatóftum gróf þetta upp á netinu og þökkum við í stjórninni honum kærlega fyrir.

Þó þetta sé allt í áttina væri reglulega gaman að fá frekari upplýsingar frá tímabilinu 2003-2006. Endilega komið upplýsingum til stjórnar ef þið lumið á einhverju.

Með kveðju,

13.11.2015 14:24

Mót á Eyrarlandi

Fjárhundakeppni verður haldin á Eyrarlandi í Fljótsdal laugardaginn 21. nóvember. Keppt verður í hefðbundnum flokkum. Tímasetning auglýst síðar. Skráningar í síma 862 1835, Þorvarður.

11.11.2015 17:54

SFÍ aðildarfélag að ISDS - Vinnupróf Húsatóftum

Nú um helgina fóru fram vinnupróf International Sheep Dog Society (ISDS) að Húsatóftum á Skeiðum þar sem félagsmenn Smalahundafélags Íslands (SFÍ) komu saman með hunda sína til þess að fá þá viðurkennda og skráða í ættbók ISDS. ISDS eru alþjóðleg samtök sem eiga sér yfir 100 ára sögu og hafa haldið utan um ræktun Border Collie fjárhunda frá upphafi. Það má segja að vinnuprófin hafi verið lokahnykkurinn í aðildarumsókn SFÍ að samtökunum og markar þessi viðburður raunverulegt upphaf okkar að félagasamtökunum. Fyrir hönd ISDS mætti Jim Easton, stjórnarformaður til landsins og með honum í för var Judith Sheen framkvæmdastjóri, einnig mætti Susanne Moelgaard Kaarsholm dýralæknir frá Danmörku til þess að augnskoða alla þá hunda sem komu í vinnuprófið.  

Jim Easton sá um að dæma hundana í vinnuprófinu ásamt fulltrúum sem SFÍ tilnefndi honum til aðstoðar, þá Þorvarð Ingimarsson og Sverri Möller. Vinnuprófið byggðist upp á því að sjá hundana í almennri vinnu við tuttugu kinda hóp án þess að gerð væri krafa um að þeir hefðu hlotið fullkomna tamningu. Þannig var hundurinn dæmdur frekar en eigandinn! Aðeins hundar sem sýndu ótvíræð einkenni Border Collie við vinnu gátu staðist prófið. Alls voru dæmdir 22 hundar frá 14 eigendum sem allir stóðust prófið og munu því allir fá ISDS skráningu. Þarna var komið saman úrval stofnsins í landinu, bæði gamlar og nýrri blóðlínur. Það er óhætt að segja að þetta séu ræktunarhundar framtíðarinnar og sumir þeirra hafa að sjálfsögðu sannað sig sem slíkir nú þegar.

Eftir vinnuprófið og þegar allir hundar höfðu verið augnskoðaðir fór fram stutt kynning í Hestakránni að Húsatóftum á starfsemi ISDS, þar sem Judith Sheen framkvæmdastjóri fór yfir sögu og hlutverk félagsins og rakti hvernig stjórnskipulag þess er byggt upp. Einnig kynnti hún fyrir fundargestum hvernig skráningar á gotum ganga fyrir sig og hvatti fólk til þess að hafa samband við skrifstofuna ef einhverjar spruningar vakna. Félagsmenn munu bæði geta skráð got með að hafa beint samband við skrifstofuna í Bretlandi eða fyrir milligöngu SFÍ. Eftirfarandi er veffang félagsins; www.isds.org.uk

Eftir kynningu Judith tók Jim Easton stjórnarformaður til máls og það er óhætt að segja að sú ræða hafi vakið ánægju viðstaddra. Þar lýsti hann því yfir að úttektin hefði verið sú besta sem hann hefði verið viðstaddur hjá nokkru landi við inngöngu í ISDS og væri þó búinn að vera við margar þeirra. Þar átti hann bæði við gæði hundanna og hversu góð tök fólk hefði á þeim. Hann var greinilega snortinn yfir því hversu góðan grunn við eigum í okkar Border Collie stofni og hversju öflugir (e. strong) hundarnir væri. Af því tilefni minntist hann þeirra tíma í Bretlandi þegar meira var til af öflugum vinnuhundum heldur en nú er. Hann sagði frá því hvernig eftirspurn eftir þægilegum (e. soft) hundum hefði haft áhrif á rækunina í Bretlandi og taldi að menn hafi gengið alltof langt í því að rækta slíka hunda. Hann hvatti okkur eindregið til þess að halda í þessar gömlu línur af öflugum og ákveðnum hundum sem hér eru og rökstuddi það meðal annars með því hversu lítið væri til af slíkum hundum í dag. Einnig sagði hanni: "Þú ræktar ekki harðan hund undan tveimur þægilegum, en þú færð nóg af þægilegum undan hörðum hundum." Þá hvatti hann okkur til að senda fulltrúa á Evrópumót fjárhunda (Continental Sheepdog Championship) í ágúst næstkomandi, á Íslandi væru bæði hundar og smalar sem ættu fullt erindi þangað. Easton rakti einnig sögu og tilurð ISDS og hvernig ræktun fjárhunda þróaðist úr tegundum nokkurra hunda með mismunandi eiginleika í eina tegund sem sameinaði þessa eiginleika og þannig varð til þessi fjárhundategund, Border Collie, sem er í dag þekkt um allan heim fyrir gæði og hæfileika.

Það er einstaklega ánægjulegt að fá svona góða umsögn frá manni eins og Jim Easton sem hefur lifað ævi sem er samofin sögu ISDS. Ræktun Smalahundafélags Íslands byggir enn að stórum hluta á þeim grunni sem Gunnar Einarsson lagði með fyrstu hundunum sem hann flutti inn og því ekki úr vegi að nýta tækifærið og þakka honum fyrir ómetanlegt framlag til fjárhundaræktunarinnar á Íslandi sem og öðrum sem hafa lagt metnað sinn í að flytja inn og rækta góða hunda. Án þeirra værum við ekki þar sem við erum í dag.
Einnig vil ég þakka Elísabetu Gunnarsdóttur fyrir að eiga frumkvæði að þessu verkefni og fylgja því í höfn og að lokum vil ég þakka Aðalsteini Aðalsteinssyni og fjölskyldu á Húsatóftum fyrir aðstoðina og frábæra aðstöðu fyrir bæði vinnuprófin sjálf og þáttakendur.

Það er von mín að aðild okkar að ISDS gagnist okkur í framtíðinni og að félagsmenn nýti sér þá möguleika sem í henni felast. Ég tek að sjálfsögðu undir með Jim Easton og hvet til þess að við varðveitum það sem við höfum, á þann hátt gætum við skapað okkur sérstöðu og ekki ólíklegt að hingað yrði leitað frá öðrum löndum eftir ræktunarhundum framtíðarinnar.

  • 1
Flettingar í dag: 114
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 710
Gestir í gær: 145
Samtals flettingar: 375081
Samtals gestir: 49879
Tölur uppfærðar: 2.4.2025 08:31:01