Færslur: 2014 Apríl
07.04.2014 13:43
Aðalfundi frestað
Ágæti félagi í Smalahundafélagi Íslands (SFÍ)
Ákveðið hefur verið að fresta aðalfundi félagsins sem var fyrirhugaður 12. apríl næstkomandi (boðaður í síðasta fréttabréfi) og halda hann samhliða næstu Landskeppni SFÍ.
Er þetta gert til þess að freista þess að fá betri mætingu á aðalfundinn og gefa deildum félagsins rýmri tíma til að kynna sér og fjalla um mögulega aðild SFÍ að International Sheep Dog Society.
Deildirnar eru um leið hvattar til að funda um aðildarumsóknina og skapa umræðuvettvang fyrir sína félagsmenn í þeirra nærumhverfi. Stjórn Smalahundafélags Íslands aflar og veitir fúslega frekari upplýsingar.
Með góðum kveðjum, Jón Geir (jongeirolafsson@gmail.com), Lísa (elisabetg@ru.is) og Sverrir (ytralon@simnet.is)
01.04.2014 15:32
AÐALFUNDUR SFÍ 2014
Aðalfundur félagsins er fyrirhugaður að heimili formanns Ytra-Lóni Langanesi þann 12. apríl næstkomandi kl. 16:00. Við gerum okkur grein fyrir að þetta er langt fyrir suma, en það er sama hvaða staðsetning hefði verið valin, það hefði alltaf verið langt fyrir einhverja. Að Ytra-Lóni geta félagsmenn fengið ódýra gistingu ef þeir þurfa á því að halda.
Ákveðið var að hafa aðalfundinn í fyrra fallinu þetta árið til að taka fyrir aðild SFÍ að ISDS og taka ákvörðun um hvenær næsta landskeppni verður haldin. Landsmótið hefur verið haldið í lok ágúst undanfarin ár, en stjórnin veltir fyrir sér hvort ástæða sé til að fresta keppninni í ár fram yfir göngur og réttir. Erfitt gæti reynst að fá erlendan dómara í lok ágúst þar sem heimsmeistarakeppnin verður haldin í Skotlandi á sama tíma. Auk þess má gera ráð fyrir að rætt verði um upptöku skráningargjalda í ættbókarforrit SNATA fyrir utanfélagsmenn og tekin fyrir önnur venjubundin fundarefni aðalfundar.
Fyrir rúmri viku fór í póst fréttabréf til félagsmanna þar sem félagsmönnum var kynnt hvað það felur í sér fyrir félagið og félagsmenn að gerast aðilar að ISDS. Þeir sem vilja koma hug sínum á framfæri eða vantar frekari upplýsingar geta haft samband við stjórnina. Öll sjónarmið eru vel þegin og verða kynnt á aðalfundi. Við viljum gjarnan að sem flestir félagsmenn komi að þessari ákvörðun, hvort sem menn eru hlynntir eða mótfallnir, og hvetjum því félagsmenn eindregið til að mæta á fundinn.
Félagsmönnum er einnig bent á að tala við deildirnar sínar. Haft hefur verið samband við stjórnir deildanna og þær beðnar um að senda fulltrúa á fund, eða að öðrum kosti senda félaginu álit sitt.
Með góðum kveðjum, stjórn SFI
- 1