18.10.2024 07:53

Nýliðabikar Korku

Nýliðabikar Korku

Á landskeppninni sem haldin var að Ási í Vatnsdal í ágúst var afhentur nýliðabikar Korku en það er nýr farandbikar sem gefinn var af fjölskyldu Svans heitins frá Dalsmynni sem var virkur og öflungur félagi í Smalahundafélagi Íslands. Mikil ánægja var með þessa gjöf og í ár hlaut Herdís Erlendsdóttir bikarinn fyrir góðan árangur í sinni fyrstu keppni. 

Kærar þakkir fyrir gjöfina og með leyfi frá Höllu ekkju Svans birtum við hér tölvupóst sem hún sendi á félagið fyrir keppnina.

 

 

Ég ákvað að setja smávegis á blað um þessa ákvörðun okkar i fjölskyldunni, að gefa bikar til afhendingar á Landskeppni SFÍ

Fljótlega eftir að Svanur dó kom upp þessi hugmynd að gefa farandbikar sem yrði afhentur á Landskeppninni. Mig minnir að Jens Þór hafi stungið upp á að bikarinn yrði afhentur því nýliðapari sem stæði sig best á Landskeppni SFÍ. Mér fannst það frábær hugmynd og mikið í anda Svans. Hann var óþreytandi við að leiðbeina þeim sem voru að stíga sín fyrstu skref í að vinna með BC hunda. Mörg og löng símtöl, bauð fólki að koma með hundinn og fá leiðsögn um næstu skref og eftirfylgni og heimsóknir í framhaldinu.

Nafnið á bikarnum kom svo til strax, vissi að hann hefði örugglega ekki verið sáttur við að bikarinn héti Svansbikar og heldur ekki Dalsmynnisbikarinn. Í raun kom bara eitt nafn til greina.

Ég spurði hann að því þegar vitað var að hverju stefndi, hvaða hundur væri nú bestur af þeim hundum sem hann hefði átt. Svarið kom strax,  hann hefði nú átt þá marga góða, nefndi þar Skessu, Vask Tinna  að ógleymdum þeim fyrsta, honum Lubba frá Hausthúsum, en Korka væri þar fremst. Hún  hefði bara allt sem góður smalahundur þyrfti. Frábær vinnufjarlægð og vinnulag og þessi mikla útgeislun sem kindur virtust finna og virða. Enginn hundur betri í að koma óþekkum eftirlegukindum í aðhald og upp á kerru. Svo væri það stór kostur að það gætu allir notað hana, hún gerði sér engan mannamun. Ég var/er alltaf pínu ánægð með að hafa gefið henni nafn og get vottað að hún var líka einstakur heimilishundur, þurfti aldrei að hafa áhyggjur af því að hún færi að smala upp á eigin spýtur, elta bíla eða fugla. Alltaf róleg og yfirveguð.

Bikarinn fékk því nafnið Nýliðabikar Korku til minningar um þetta par, þau Svan og Korku.

Ég læt fylgja eignarbikar sem er bikar úr stóru bikarasafni Svans, þann bikar  fékk Skessa frá Hæl  árið 2002 þegar hún vann A flokkinn í Kjósarkeppninni.

Ég stefni að því að koma svo á keppnina á sunnudaginn.

 

Með bestu kveðju 

Halla Dalsmynni

 

 
 

Flettingar í dag: 2216
Gestir í dag: 147
Flettingar í gær: 760
Gestir í gær: 54
Samtals flettingar: 286081
Samtals gestir: 40187
Tölur uppfærðar: 18.10.2024 12:09:48