30.08.2024 11:22

Landskeppni 2024

Landskeppni Smalahundafélags Íslands 2024

Helgina 24.-25. ágúst sl. fór Landskeppni SFÍ fram að Ási í Vatnsdal í samstarfi við Smalahundadeild Snata í Húnavatnssýslu.

Keppt var í þremur flokkum, A-flokk, B-flokk og Unghundaflokki en þar mega hundar ekki vera orðnir eldri en þriggja ára, miðað við fæðingardag hunds. A-flokkur er ætlaður þeim sem hafa keppt áður enda er sú braut lengst og talsvert meira krefjandi atriði sem þarf að leysa. B-flokkur er hugsaður fyrir nýliða sem eru að taka sín fyrstu skref í keppni, hvort sem um ræðir hund eða þjálfara og er brautin talsvert styttri en í A-flokk og færri atriði sem þarf að leysa. Að þessu sinni voru 17 hundar skráðir til keppni og dreifðist það nokkuð jafnt á milli flokka. Veðrið var í svipuðum stíl og það hefur verið þetta sumarið, talsverð bleyta og lítið sást til sólar, en keppendur létu það ekki á sig fá enda vanir að þurfa að smala í margbreytilegum veðrum.

SFÍ er aðildarfélag að ISDS (International Sheepdog Society) og hafa undanfarin ár verið fengnir dómarar í gegnum ISDS til að dæma Landskeppni. Þetta hafa yfirleitt verið miklir reynsluboltar sem hafa verið ósparir á að veita keppendum góð ráð um hvað megi bæta og hvernig og erum við afar þakklát fyrir þetta góða samstarf. Dómarinn í ár var engin undanteking en það var bretinn George Bonsall sem naut aðstoðar Ingveldar Ásu Konráðsdóttur við að rita og fá þau kærar þakkir fyrir.

Besta tík mótsins var valin vinningshafi A-flokks, Míla frá Hallgilsstöðum en hún fékk einnig Tígulsbikarinn sem veittur er þeim hundi sem fær flest stig í keppninni. Besti hundur móts var Bassi frá Hríshóli sem lenti í 2. sæti í A-flokki. Nýr farandsbikar, í minningu Svans H. Guðmundssonar í Dalsmynni var veittur af Höllu Guðmundsdóttur ekkju Svans en hann lést árið 2022. Svanur var virkur félagi SFÍ og lagði metnað sinn í að aðstoða þá sem voru að stíga sín fyrstu skref í þjálfun BC fjárhunda. Bikarinn, sem nefnist Korkubikar eftir bestu tík Svans, fer til þess nýliðapars sem stendur sig best á landskeppni Sfí. Að þessu sinni var það Herdís Erlendsdóttir með tíkina Kríu frá Hjartarstöðum sem fékk afhentan Korkubikarinn. Höllu eru færðar bestu þakkir fyrir.

Sérstakar þakkir til Líflands og Kaupfélags Vestur-Húnvetninga sem styrktu mótið.

Úrslit voru eftirfarandi:

A-flokkur

1. sæti Maríus Halldórsson og Míla frá Hallgilsstöðum -170 stig

2. sæti Ingvi Guðmundsson og Bassi frá Hríshóli - 159 stig

3. sæti Sverrir Möller og Grímur frá Ketilsstöðum - 145 stig

 

B-flokkur

1. sæti Halldór Pálsson og Garpur frá Hallgilsstöðum - 124 stig

2. sæti Herdís Erlendsdóttir og Kría frá Hjartarstöðum - 115 stig

3. sæti Símon Helgason og Kjarkur frá Staðarhrauni - 98 stig

 

Unghundaflokkur

1. sæti Marzibil Erlendsdóttir og Patti frá Gunnarsstöðum - 106 stig

2. sæti Maríus Halldórsson og Dýri frá Presthólum - 72 stig

3. sæti Rune Brumoen og Glebe Fort Fern -28 stig

 

Flettingar í dag: 509
Gestir í dag: 77
Flettingar í gær: 1867
Gestir í gær: 66
Samtals flettingar: 268634
Samtals gestir: 38566
Tölur uppfærðar: 19.9.2024 04:08:54