04.02.2010 20:24
Hvolpahittingur í máli og myndum.
Það mættu 10 tilvonandi smaladýr í höllina, á aldrinum tæplega 4 mán til 1 1/2 árs.
Byrjað var á að kanna hversu vel hafði verið staðið að uppeldinu á þessum væntanlegu smalamaskínum, hvort þeir teymdust vel, gengju við hæl, leggðust , biðu samkv. skipun og.sv.frv.
Þetta leit bara vel út og greinilega liðin tíð að menn láti hvolpana ala sig upp sjálfa þar til kemur að fyrstu smalamennskunni.
Þegar hvolpar á þessum aldri mæta á svona samkomu skiptast þeir gjarnan í 3 flokka eftir að rolluprufunni lýkur.
Einhverjir eru ekki komnir með neinn áhuga á kindum enn, sem á oftast eftir að breytast þó alltaf finnist dæmi um ágætlega ættaða hvolpa sem fá aldrei rétta vinnuáhugann.
Sumir eru síðan orðnir býsna borubrattir en þeir eru ekki í vinnuhugleiðingum, heldur að leika sér að verkefninu og þurfa gjarnan að bíða eitthvað eftir að borgi sig að setja þá í kindavinnunámið.
Þriðji hópurinn er síðan orðinn klár í námið, kominn með rétta vinnuáhugann sem á þó stundum eftir aukast áður en lýkur.
Þessi litla tík sem var yngst í hópnum, ekki orðin 4 mán, kom skemmtilega á óvart.
Aldrei séð kindur áður en snögg að átta sig á að þessi fyrirbrigði væri rétt að stoppa af.
Fallegur sveigur fram fyrir þær og svo var stoppað. Þetta endurtók hún, svo ekki fór á milli mála að það leynast einhver nothæf gen í henni. Kannski vegna þess að hún á langömmu í Dalsmynni sem heitir Skessa.
Terrý frá Hrossholti kom vestan úr Reykhólasveit í djammið á Nesinu. Hún lenti í miklum ævintýrum fyrr um daginn en slapp ekki við reiðhallartímann að þeim loknum. Hún er árinu eldri en frænka hennar hér fyrir ofan og lumar vonandi á nokkrum ömmugenum.
Hér gera Hraunholtabóndinn og Moli frá Tálknafirði leikhlé og ræða stöðuna.
Katla og Elísa koma sér í mjúkinn hjá Alexander með því að hæla hvolpinum hans á hvert reipi.
Já það er alltaf jafnskemmtilegt að spá og spekúlera í fjárhundsefnunum.
Tillögunni sem stungið var að mér um daginn, um að boðið verði uppá námskeið 1 sinni til 2 í mán. sem síðan myndi ljúka með hundakeppni í fyllingu tímans, er hér með komið áfram til stjórnar smalahundadeildar Snæfellinga.
Þar er full af eldklárum náungum sem gætu skipst á um að leiða hóp í gegnum svona ferli.
Það vantar allstaðar góða smalahunda í dag.