01.04.2014 15:32

AÐALFUNDUR SFÍ 2014


Aðalfundur félagsins er fyrirhugaður að heimili formanns Ytra-Lóni Langanesi þann 12. apríl næstkomandi kl. 16:00. Við gerum okkur grein fyrir að þetta er langt fyrir suma, en það er sama hvaða staðsetning hefði verið valin, það hefði alltaf verið langt fyrir einhverja. Að Ytra-Lóni geta félagsmenn fengið ódýra gistingu ef þeir þurfa á því að halda.

Ákveðið var að hafa aðalfundinn í fyrra fallinu þetta árið til að taka fyrir aðild SFÍ að ISDS og taka ákvörðun um hvenær næsta landskeppni verður haldin. Landsmótið hefur verið haldið í lok ágúst undanfarin ár, en stjórnin veltir fyrir sér hvort ástæða sé til að fresta keppninni í ár fram yfir göngur og réttir. Erfitt gæti reynst að fá erlendan dómara í lok ágúst þar sem heimsmeistarakeppnin verður haldin í Skotlandi á sama tíma. Auk þess má gera ráð fyrir að rætt verði um upptöku skráningargjalda í ættbókarforrit SNATA fyrir utanfélagsmenn og tekin fyrir önnur venjubundin fundarefni aðalfundar.

Fyrir rúmri viku fór í póst fréttabréf til félagsmanna þar sem félagsmönnum var kynnt hvað það felur í sér fyrir félagið og félagsmenn að gerast aðilar að ISDS. Þeir sem vilja koma hug sínum á framfæri eða vantar frekari upplýsingar geta haft samband við stjórnina. Öll sjónarmið eru vel þegin og verða kynnt á aðalfundi. Við viljum gjarnan að sem flestir félagsmenn komi að þessari ákvörðun, hvort sem menn eru hlynntir eða mótfallnir, og hvetjum því félagsmenn eindregið til að mæta á fundinn.

Félagsmönnum er einnig bent á að tala við deildirnar sínar. Haft hefur verið samband við stjórnir deildanna og þær beðnar um að senda fulltrúa á fund, eða að öðrum kosti senda félaginu álit sitt.

Með góðum kveðjum, stjórn SFI

Flettingar í dag: 805
Gestir í dag: 35
Flettingar í gær: 820
Gestir í gær: 60
Samtals flettingar: 187471
Samtals gestir: 28399
Tölur uppfærðar: 19.5.2024 15:45:35