26.11.2013 17:01

Smalahundamót Austurlandsdeildar SFÍ

Deildarmót Austurlandsdeildar SFÍ var haldið á Ytra-Lóni á Langanesi laugardaginn 23. nóvember síðastliðinn. Sverrir Möller bar hitann og þungann af mótinu og rétt að nota tækifærið til að þakka honum fyrir ósérhlífnina. Það er að ýmsu að huga þegar svona mót er haldið og ekkert sjálfgefið að menn bjóðist til að taka það að sér. Dómari var Lárus H. Sigurðsson frá Gilsá. Við hjá Austurlandsdeildinni kunnum honum og öðrum sem lögðu hönd á plóginn kærar þakkir fyrir sín störf.

Það var ægifagurt á Langanesinu þennan daginn. Atlandshafið ólgaði í brautarjaðrinum og hvíslaði einhverju að keppendum á meðan fjöllin mændu á úr bláum fjarska.  Það má segja að mótið hafi endurspeglað vel þær krefjandi aðstæður sem íslenskir smalahundar þurfa gjarnan að glíma við. Hiti var rétt undir frostmarki , bálkvasst og mikil vindkæling. Brautin bauð upp á ýmsar áskoranir svo sem frosnar tjarnir, hálkubletti og rofabörð sem gátu hæglega verið þrándur í götu ef hundar og smali gættu ekki vel að sér. Hundarnir sýndu og sönnuðu að þarna voru á ferð alvöru smalahundar sem láta engan bilbug á sér finna við krefjandi aðstæður. Kindurnar voru léttar og skemmtilegar og  að sama skapi fljótar að refsa keppendunum ef smalinn gleymdi sér augnablik eða hundurinn bar sig ekki alveg rétt að.


Sjö smalar tóku þátt og 11 hundar. Flestir keppendurnir komu af Norðausturlandi og Austurlandi, en einn keppandi lagði þó í heldur lengra ferðalag en hinir. Agnar Ólafsson mætti frá Höfn með Kát frá Eyralandi og lét varnarðarorð sveitunga sinna um háskalegt ferðalag á hjara veraldar sem vind um eyru þjóta. Við hjá Austurlandsdeildinni fögnuðum að sjálfsögðu þessum góðu gestum. Þess má líka geta að tveir af þátttakendunum, Maríus Snær Halldórsson og Edze Jan de Haan, voru að keppa í fyrsta skipti. Bæði hundar og smalar sýndu góða takta og eru líklegir til alls í framtíðinni.

Keppt var í 3 flokkum að venju og skiptu keppendurnir verðlaununum nokkuð bróðurlega á milli sín. Þegar fáir keppa segir stigaskor ef til vill meira um frammistöðu hundanna heldur en sætið sem þeir lentu í. Eins og kemur fram í úrslitunum hér að neðan skiluðu hundarnir góðum rennslum og voru því vel að verðlaununum komnir. Að keppni lokinni var haldið heim að Ytra-Lóni þar sem vindbarðir en glaðbeittir smalar tóku við verðlaunum. Þar hafði Mirjam galdraði fram dásamlegar veitingar í fundarsalnum Smala sem keppendur og áhorfendur gæddu sér á.


Flokkur unghunda (90 stig mest)

1) Agnar Ólafsson og Kátur frá Eyralandi (70 stig). Aldur hunds: 2,5 ár. M: Lýsa frá Hafnarfirði, F: Mac frá Wales / Eyralandi.

2) Sverrir Möller og Grímur frá Daðastöðum (63 stig) Aldur hunds: 2,5 ár M: Pressa frá Eyralandi, F: Cesar frá Daðastöðum.

3) Maríus Snær Halldórsson og Sara frá Bjarnastöðum (45 stig - féll á tíma). Aldur hunds: 2,5 ár. Míla frá Bjarnastöðum, F: Dan frá Skotlandi / Daðastöðum.


B-flokkur (90 stig mest)

1) Helgi Árnason og Strumpur frá Snartarstöðum (69 stig). Aldur hunds: 3,5 ár. M: Rós frá Daðastöðum, F: Guttir frá Snartarstöðum.

2) Elísabet Gunnarsdóttir og Ýta frá Daðastöðum (64 stig). Aldur hunds: 3,5 ár M: Pressa fra Eyralandi, F: Mac frá Wales / Eyralandi. 

3) Edze Jan de Haan og Gláma frá Sauðanesi (? stig - Féll á tíma). Aldur hunds: 3,5 ár. M: Snotra frá Grundarfirði, F: Patti frá Daðastöðum.


A-flokkur (100 stig mest)

1) Þorvarður Ingimarsson og Mac frá Wales / Eyrarlandi (85 stig). Aldur hunds: 11 ár. M: Peg, F: Storm.

2) Elísabet Gunnarsdóttir og Skotta frá Daðastöðum (85 stig). Aldur hunds: 7 ár. M: Píla frá Garði, F: Prins frá Daðastöðum.

3) Elísabet Gunnarsdóttir og Panda frá Daðastöðum (83 stig). Aldur hunds: 5 ár. M: Skotta frá Daðastöðum, F: Dan frá Skotlandi / Daðastöðum.

4) Þorvarður Ingimarsson og Lýsa frá Hafnarfirði (68 stig). Aldur hunds: 9 ár. M: Týra frá Kaðalsstöðum, F: Tígull frá Eyrarlandi.

5) Þorvarður Ingimarsson og Eyra frá Eyrarlandi (67 stig). Aldur hunds: 4 ár. M: Lýsa frá Eyrarlandi, F: Mac frá Wales / Eyrarlandi.

*Ath. aldur hunda er námundarður að heilu eða hálfu ári


MYNDIR frá mótinu er að finna í myndasafni http://smalahundur.123.is/photoalbums/255162/


Fyrir hönd Austurlandsdeildar SFÍ, Elísabet Gunnarsdóttir

Flettingar í dag: 139
Gestir í dag: 44
Flettingar í gær: 180
Gestir í gær: 66
Samtals flettingar: 171992
Samtals gestir: 26828
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 21:30:30